Stríðsmaður rósanna gerist friðflytjandi

0
530

Arms3Douglas

Maí 2014. Michael Douglas hefur farið í fjárssjóðsleit í frumskógum Suður-Ameríku og leikið fjárplógsmann á Wall Street, en hann hefur aldrei komið nálægt stríðsmynd. Hann hefur látið slíkt eftir föður sínum, leikaranum Kirk Douglas. Nú þegar öld er liðin frá upphafi fyrri heimstyrjaldarinnar er myndin Paths of Glory þar sem Douglas eldri leikur franskan liðsforingja, endursýnd víða um heim. Ímynd Kirk Douglas tengist stríði en það næsta sem sonur hans hefur komist stríði á ferlinum er að leika í Rósastríðinu sem fjallar ekki um átök um ensku krúnuna heldur illvígan skilnað í Bandaríkjum vorra daga.

Ekki svo að skilja að öll hlutverk Michael Douglas hafi verið friðsæl. Hann lék aðalhlutverk í myndinni Fullkomið morð sama ár (1998) og hann var skipaður Friðflytjandi Sameinuðu þjóðanna.
Í því hlutverki lagði hann samtökunum lið við kynningu bókarinnar Aðgerðir í þágu afvopnunar: 10 hlutir sem þú getur gert! í höfuðstöðvunum í New York á Alþjóðlegum aðgerðardegi um hernaðarútgjöld 14. apríl síðastliðinn.

Bókin er skrifuð fyrir nemendur í mennta- og háskólum. Þar er tíundað með hvaða hætti ungt fólk getur fylkt liði til þess að vinna hugsjónum Sameinuðu þjóðanna um afvopnun lið í skólum og víðar.
“Bólkin er hvatning um greiða fyrir því að góðviljað fólk og friður hafi betur í baráttu við stríðstól,“ sagði Michael Douglas þegar hann fylgdi bókinni úr hlaði ásamt Angela Kane, Afvopnunarstjóra Sameinuðu þjóðanna.
Við viðstödd ungmenni sagði Douglas: „Ég vil að þið gerið ykkur grein fyrir hversu mikið vald þið hafið; vald til að gera heiminn betri og öruggari stað.“

Douglas segir að hann hafi fyrst vaknað til vitundar um þann málaflokk sem hann nú sinnir á vegum Sameinuðu þjóðanna sem Friðar sendiboði „þegar ég lék í mynd fyrir mörgum árum og hét The China Syndrome sem fjallaði um kjarnorkuver sem bræddi úr sér.“ Tólf dögum eftir frumsýninguna varð slys í kjarnorkuveri á Þriggja mílna eyju í Bandaríkjunum en það er mesta kjarnorkuslys í sögu einkarekinna kjarnorkuvera í landinu.

„Ég heimsótti lika Hvíta-Rússland (Belarus) en faðir minn er þaðan, skammt frá Tsjernobil kjarnorkuverinu. Þetta stuðlaði að því að ég varð Friðar sendiboði,“ sagði Douglas.
Douglas var annar tveggja kynna Nóbelsverðlaunahátíðarinnar þegar friðarverðlaunin voru veitt árið 1993. Hann hefur barist fyrir kjarnorkuafvopnun og á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegum vopnum og notkun barna í hernaði.
„Hér hjá Sameinuðu þjóðunum teljum við að afvopnun sé hluti af lausninni,“ sagði Kane, afvopnunarstjóri. „Uppræting efnavopna Sýrlendinga og nýi Vopnaviðskiptasamningurinn eru tvö dæmi um nýlegan árangur á sviði afvopnunar.“
Hún fagnaði bókinni og minnti á að æðsta takmark Sameinuðu þjóðanna á sviði afvopnunarmála væri kjarnorkuvopnalaus heimur. „Þetta er ekki aðeins bók, heldur praktískur leiðarvísir.“

Jan Eliasson, hinn sænski varaframkvæmdastjóri samtakanna var bjarstýnn í tali á dögunum í umræðum um afvopnunarmál, en slíkt heyrir til tíðinda í þessum málaflokki þar sem aukning vígbúnaðar er nánast regla en ekki undantekning. Hann sagði í apríl síðastliðnum að það væri „enn hægt að gera 2014 að árinu þegar diplómatískir brúarsmiðir og slökkviliðsmenn yrðu sigursælir.“

Segja má að nú hafi brúarsmiðirnir og slökkviliðsmennirnir vopn í bókarformi til þess að breyta sverðum í plóga.

Mynd: Michael Douglas við kynningu afvopnunarbókarinnar ásamt Maher Nasser, frá Upplýsingadeild SÞ. SÞ-mynd/Devra Berkowitz