UN Women og ESB: samvinna í jafnréttismálum

0
461

UN Women signing

16. apríl 2012: Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa ákveðið að taka höndum saman við valdeflingu kvenna og jafnrétti kynjanna um víða veröld. Samningur þar að lútandi var undirritaður í Brussel fyrr í vikunni.
Samvinna Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins mun fyrst og fremst beinast að því að auka hlut kvenna í ákvarðanatöku á sviði efnahags-, stjórnmála- og dómsmála um allan heim auk bætts aðgangs kvenna að vinnu og félagslegum úrræðum.
Ekki síður vegur þungt að samtökin taka höndum saman í baráttunni gegn kynferðislegu- og kynbundnu ofbeldi. Þar á meðal skuldbinda þau sig til að auka aðstoð og vernd fórnarlamba slíks ofbeldis og aðgang fórnarlamba að stuðningi og þjónustu.
Af hálfu Evrópusambandsins undirrituðu samninginn Catherine Ashdown, Háttsettur utanríkismálafulltrúi Evrópusambandsins og Andris Pielbalgs, sem fer með þróunarmál í framkvæmdastjórninni. Michelle Bachelet, forstjóri UN Women undirritaði fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna en viðstaddir voru José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.


Í samningnum heita ESB og SÞ því að halda áfram núverandi samvinnu við að styðja jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna og tryggja nánari samvinnu og skipti á upplýsingum, sérfræðiþekkingu og greiningu til að efla réttindi kvenna.
Michelle Bachelet, forstjóri UN Women sagði eftir undirritunina: “Full þátttaka kvenna eflir lýðræði, frið og varanlega þróun á heimsvísu. Með því að ganga frá samningi um markvissa samvinnu, staðfesta Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar eindregnar skuldbindingar sínar til að auka jafnrétti kynjanna og valdefla konur. Evrópusambandið er mikilvægur samstarfsaðili UN Women og samningurinn mun efla samvinnu um stefnumörkun sem getur skipt sköpum fyrir líf milljóna kvenna og stúlkna um allan  heim.”