Viðskiptaþingið í Davos

0
503

Fjárfesting í menntun kvenna:”Snjallasta fjárfestingin”

Ban og HelleBan Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag leiðtoga viðskiptalífs heimsins til að auka fjárfestingu í menntun kvenna og heilbrigði. Ban lét þessi orð falla á fundi í tengslum við efnahagsmálaþingið í Davos í Sviss. Hann sagði þýðingarmikið að auka fjárfestingu á þessum sviðum til að auka velferð kvenna og auka þátttöku þeirra í efnahagslífi heimsins.  

“Það er ekki aðeins rétt að fjárfesta í heilsu kvenna og stúlkna heldur eitt það snjallasta sem hægt er að gera í þágu hagkerfis einstakra landa og stöðugleika á heimsvísu,” sagði Ban á fundi sem skipulagður var í tengslum við Hver kona-hvert barn frumkvæðið. Því var ýtt úr vör 2010 til að fylkja liði og efla aðgerðir í heiminum til að bjarga lífi 16 milljóna barna og kvenna og bæta líf milljóna annara.

Ban lagði áherslu á að bæta mæðravernd í því skyni að konur gætu fætt börn áhættulaust. “Á síðasta ári létust meir en 300 þúsund konur af barnsförum. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir langflest þessara dauðsfalla.” Framkvæmdastjórinn kvað nauðsynlegt að sjá stúlkum fyrir menntun til þess að þær gætu tekið þátt í efnahagslífinu og stofnað fjölskyldu þegar þær vildu. Hann sagði viðskiptalífið geta lagt sín lóð á vogarskálarnar.  

 

Ban Ki-moon og Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur.

“Einkageirinn er í einstakri aðstöðu til að tryggja konum og börnum betra líf um allan heim,” sagði hann. “Fjarskiptafyrirtækin hafa greitt fyrir aðgangi kvenna að hreyfanlegri heilsugæslu í dreifbýli. Fyrirtæki nota tæknilegan styrk sinn til að þróa heilsugæslubúnað á viðráðanlegu verði fyrir afskekkt héruð. Lyfjafyrirtæki eru að þróa þýðingarmikil lyf fyrir þá sem hafa brýnustu þörfina fyrir þau.”  
Ban hefur hitt fjöldan allan af leiðtogum einslega í Davos og má nefna forsætisráðherra Danmerkur Helle Thorning-Schmidt.