Vilji Asíubúa til að eignast syni gæti haft alvarlegar félagslegar afleiðingar, að sögn Sameinðu þjóðanna

0
444

29. október .Vilji margra Asíubúa til að ákveða kyn barna fyrir fæðingu gæti haft alvarlegar félagslegar afleiðingar á næstu árum, meðal annars aukið kynferðislegt ofbeldi og mansal kvenna að því er fram kemur í nýjum rannsóknum á vegum Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).

Aukið aðgengi að tækni til að greina kyn fóstur, hefur haft í för með sér að kvenfóstrum er í sífellt auknum mæli eytt. Afleiðingarnar gætu orðið að karlar verði mun fleiri en konur í þjóðfélögum þar sem þetta viðgengst. Sífellt fleiri karlar munu af þessum sökum eiga í erfiðleikum með að finna kvonfang.
“Ójöfn kynjahlutföll munu aðeins leiða til djúpstæðs ójafnvægis í þessum þjóðfélögum,” segir Thoraya Ahmed Obaid, forstjóri UNFPA. 
Í mörgum Asíuríkjum hefur frá aldaöðli þótt ákjósanlegt að eiga syni af menningarlegum og efnahagslegum orsökum. Dætur þykja byrði þar sem greiða þarf heimamund og foreldrar treysta á framfærslu sona þegar aldurinn færist yfir. Þá kemur í hlut sonanna að kveðja deyjandi foreldra og heiðra minningu forfeðranna.  
Í niðurstöðum rannsóknanna er varað við því að verði ekki brugðist við í Víetnam og Nepal muni þau standa frammi fyrir sömu vandamálum og Indland og Kína þar sem kynjahlutfallið er ójafnast vegna mun fleiri sveinbarnafæðinga en meybarna. 
Í Kína fæddust 120 sveinbörn (og sums staðar 130) fyrir hver 100 meybörn árið 2005. Manntal á Indlandi árið 2001 benti til að 108 sveinbörn fæðist fyrir hver 100 meybörn en sums staðar í norður- og vesturhéruðum landsins er talan 120 sveinbörn.
Sjá nánar: http://www.unfpa.org/news/news.cfm?ID=1057