2011 þýðingarmikið fyrir Palestínumenn

0
407
alt

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að árið 2011 geti reynst þýðingarmikið fyrir Palestínumenn ef rétt verði haldið á spilum. altÍ ávarpi sínu á alþjóðlegum samstöðudegi með palestínsku þjóðinni 29. nóvember, segir framkvæmdastjórinn að bæði Abbas, Palestínuforseti og Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels hafi heitið að leitast við að ljúka rammasamkomulagi um framtíðarstöðu Palestínu fyrir september. Heimastjórn Palestínumanna muni hafa lokið við að framkvæma tveggja ára áætlun um undirbúning að stofnun ríkis um svipað leyti. 

     “Þrátt fyrir þetta eru fáir Palestínumenn bjartsýnir á að nokkur verulegur árangur náist á næsta ári eða náist yfirleitt. Þegar ég lít á stöðuna eins og hún er, skil ég afstöðu þeirra,” segir Ban í ávarpi sínu. Hann rifjar upp að Ísraelsmenn hafi hafið á ný byggingarframkvæmdir á landnámssvæðum sínum í Palestínu um það leyti sem friðarviðræður áttu að hefjast að nýju. “Þessi þróun mála gróf alvarlega undan trúverðugleika hins pólitíska ferils. Ísraelum ber skylda til að axla ábyrgð sína samkvæmt alþjóðalögum.”

Hann bendir á að fæstir Ísraelar séu heldur bjartsýnir á frið á næstunni. Hann segist skilja áhyggjur þeirra af öryggi sínu, en segir Abbas forseta Palestínumanna viðurkenna rétt Ísraels til að búa við frið og öryggi og hann hafni ofbeldi og hryðjuverkum.

“Palestínska heimastjórnin verður að halda áfram þróun stofnana ríkis, berjast gegn hryðjuverkaárásum og hemja hvatningar til slíks. Á sama tíma er það bæði skylda og hagsmunir Ísraels að draga saman hernámsaðgerðir, sérstaklega hvað varðar takmarkanir á samgöngur, aðgang og öryggi.”

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í ályktun árið 1977 að 29. nóvember ár hvert skyldi vera Alþjóðadagur samstöðu með palestínsku þjóðinni. Þann dag árið 1947 samþykkti Allsherjarþingið ályktun 181 um skiptingu Palestínu í ríki Gyðinga og ríki Araba.