Hvatt til árangurs í nafni “barna ykkar og barnabarna”

0
420
alt

Hvatt var til aukinna skuldbindinga ríkja og málamiðlana við setningu Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Cancún í Mexíkó á mánudag (29. nóvember).

alt

Felipe Calderón, forseti Mexíkó vitnaði í setningarræðu sinni til fellibylja sem herjuðu á Mexíkó á síðasta ári, flóðanna í Pakistan í ár og eldanna sem loguðu í Rússlandi sem dæmi um aukna tíðni náttúruhamfara sem rekja má til loftslagsbreytinga. Benti hann á að það væru fyrst og fremst hinir fátækustu og þeir sem stæðu höllustum fæti sem ættu um sárt að binda af völdum loftslagsbreytinga. 

Hvatti hann samningamenn í Cancún til að ná árangri í viðræðunum í nafni barna þeirra og barnabarna og sagði að “augu heimsins” fylgdust með fundinum.  

„Loftslagsbreytingar hafa áhrif á hnattræna vísu,” sagði forsetinn. “Þetta þýðir að þið eruð ekki einir við samningaborðið hér í Cancún. Við hlið ykkar eru milljarðar manna sem ætlast til að þið náið árangri í nafni alls mannkyns.” 

Tveggja vikna fundurinn er sextándi fundur aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og sjötti fundur hundrað níutíu og tveggja aðila að Kyoto bókuninni.  

Nýkjörinn forseti fundarins, Patricia Espinosa, segir að ríkisstjórnir geti náð samkomulagi um að grípa til aðgerða á sviði aðlögunar, flutninga tækniþekkingar og skóga, auk þess að stofna nýjan sjóð helgaðan langtíma fjármögnun í loftslagsmálum.

Nærri fimmtán þúsund þátttakendur, þar á meðal fulltrúar þeirra hundrað níutíu og fjögurra ríkja sem eiga aðild að Rammasamningnum um loftslagsmál og fulltrúar atvinnulífsins, umhverfissamtaka og rannsóknarstofnana, taka þátt í tveggja vikna fundinum í Cancún. 

Sjá nánar um Cancún fundinn: www.unfccc.int, www.unric.org/is og www.un.org . Upplýsingar fyrir blaðamenn: http://unfccc.int/media/items/5741.php