320 fótboltavellir undir sand á hverri mínútu

0
419

eyðimork

17.júní 2014. Margir hafa aldrei heyrt um eyðimerkurvæðingu, en samt er þetta ein alvarlegasta umhverfisvá samtímans.  Með eyðimerkurvæðingu er ekki átt við það þegar td. Sahara-eyðimörkin skríður fram, heldur er hér átt við þrálátan uppblástur vistkerfa á þurrum landsvæðum af mannavöldum. Hér getur verið á ferðinni hvort heldur sem er ósjálfbær landbúnaður, námagröftur, ofbeit eða ruðningur skóglendis að ekki sé minnst á loftslagsbreytingar.  

Eyðimerkurvæðing er alheims fyrirbæri og bitnar á öllu mannkyni. 2.6 miljarðar manna lifa af landbúnaði, en 52% alls lands hefur að töluverðu eða miklu leyti orðið jarðvegseyðingu að bráð.

Á hverju ári verða  12 milljónir hektara lands eyðimerkurvæðingu að bráð eða 23 hektarar á mínútu sem samsvarar 32 fótboltavöllum.

Á þessu svæði væri hægt að rækta 20 milljónir tonna af korni á ári. Tveir milljarðar manna búa á þurru landsvæðunum, 90% í þróunarríkjum. Í mörgum þeirra fer saman meiri þörf fyrir land til ræktunar vegna fjölgunar og minna úrval af landi vegna eyðimerkurvæðingar.

Alþjóðadagur baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun og ofþurrk er haldinn í dag. Aðalþema dagsins er helgað aukinni vitund um aðlögunarhæfni vistkerfa, ekki síst þurrlendis, til að mæta loftslagsbreytingum. 

“Á heimsvísu er því spáð að ófyrirsjáanlegt og öfgafullt veðurfar muni hafa enn meiri áhrif en áður á matvælaframleiðslu,“ segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni Alþjóðlega dagsins. „Íbúafjöldi jarðarinnar fer vaxandi. Við þurfum að mæta því með því að nýta landið á sjálfbæran hátt, forðast frekari eyðingu og vinna á ný land sem hefur eyðst.“