53 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa verið drepnir á Gasa

0
21
Íbúðahverfi á Gasa hafa verið jöfnuð við jörðu í flugskeytaárásum.
Íbúðahverfi á Gasa hafa verið jöfnuð við jörðu í flugskeytaárásum. Mynd: © UNICEF/Mohammad Ajjour

Gasasvæðið. Sameinuðu þjóðrnar. UNRWA. (Uppfært 27/10) Alls hafa nú 53 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna látið lífið á Gasasvæðinu frá 7.október. Allt er þetta starfsfólk UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálparinnar.

„Þau eru mæður og feður. Yndislegt fólk, sem hefur helgað líf sitt samfélagi sínu,“ sagði Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA þegar hann tilkynnti í gær að enn hefði tala látinna starfsmanna hækkað snarlega. „Ef þetta fólk hefði ekki búið á Gasa, hefði þetta rétt eins getað verið nágranni þinn. Einn starfsfélagi okkar lést þegar hann var á leið heim eftir að hafa sótt brauð í bakarí. Hann skilur eftir sig sex börn.“ (Uppfærslu lýkur).

Rúmlega 600 þúsund stökkt á flótta

Í daglegri skýrslu UNRWA segir að nú hafi 613 þúsund manns hrökklast frá heimilum sínum á Gasa. Fólkið hefst við í 150 skýlum UNRWA á Gasa; tjöldum, skólum eða heilsugæslustöðvum.

Eldsneyti skiptir sköpum fyrir UNRWA í dreifingu mannúðaraðstoðar. Ef ekki berst eldsneyti til Gasa mun smátt og smátt draga úr mannúðarstarfi UNRWA uns það stöðvast með öllu. Það getur gerst þá og þegar.

Tal al-Hawa hverfið í Gasaborg eftir flugskeytaárás.
Tal al-Hawa hverfið í Gasaborg eftir flugskeytaárás. Mynd: © UNICEF/Eyad El Baba

Rúmlega sjö þúsund manns hafa látist í loftárásum Ísraels á Gasa frá árásum Hamas-samtakanna á Ísrael 7.október. Þar af eru rétt tæplega þrjú þúsund börn og rúmlega sautján hundruð konur.  Rúmlega sautján þúsund hafa særst. Þessu til viðbótar er 1550 saknað, þar af 870 barna, og eru fólkið talið grafið undir rústum bygginga.

Nærri fjórtán hundruð Ísraelar og erlendir borgarar hafa lástist frá 7.október, langflestir í hryðjuverkaárásum Hamas þann sama dag, að sögn Mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA).

Þá hafa 95 verið drepnir á Vesturbakka Jórdanar og 1900 særst frá 7.október.

Verulega er farið að þrengja að flóttafólki, sem hefst við í skýlum UNRWA á Gasa og er langt frá því að hægt sé að segja að fólkið búi við nokkra reisn. Talið er að 10 til 12 sinnum fleiri hafist við í skýlunum en þau voru hönnuð til að hýsa.