Óréttlætanlegar árásir – en gerðust ekki í tómarúmi

0
23
Fundur Öryggisráðsins í gær.
Fundur Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Gasasvæðið. Mið-Austurlönd. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varaði við því að ástandið í Mið-Austurlöndum yrði alvarlega með hverri klukkustund. Hætta væri á að stríðið á Gasasvæðinu stigmagnaðist og teygði anga sína víðar í heimshlutanum.

Guterres hvatti til þess á daglöngum fundi Öryggisráðsins í gær til að leyfð yrði óhindruð mannúðaraðstoð og komið á tafarlausu vopnahléi.

„Það er þýðingarmikið á stund sem þessari, að hafa grundvallasjónarmið að leiðarljósi og ég nefni fyrst að virða og vernda óbreytta borgara,“ sagði Guterres. „Ekkert réttlætir að drepa óbreytta borgara, meiða eða svipta þá frelsi og heldur ekki að gera eldflaugaárásir á íbúðabyggðir.”

Hann hvatti til þess að Hamas léti gísla lausa þegar í stað. Þá hvatti hann til að flutningar mannnúðaraðstoðar yrðu leyfðir þegar í stað og án takmarkana. „Ég ítreka ákall mitt um vopnahlé í mannúðarskyni til þess að draga úr þjáningum og greiða fyrir flutningi mannúðaraðstoðar og auðvelda lausn gíslanna.“

Sameh Hassan Shoukry Selim utanríkisráðherra Egyptlands ávarpar fund Öryggisráðsins.
Sameh Hassan Shoukry Selim utanríkisráðherra Egyptlands ávarpar fund Öryggisráðsins. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

56 ára herseta

Guterres sagði að árásir Hamas hefðu ekki gerst í tómarúmi. Palestínska þjóðin hefði mátt sæta 56 ára kæfandi hernámi. Á þeim tíma hefðu landtökumenn tekið slegið eign sinni á land þeirra, efnahagslífið staðnað, heimili verið eyðilögð og vonir um pólítíska lausn horfið.

Hins vegar væri gremja Palestínumanna engin réttlæting fyrir árásum Hamas. „Og þessar skelfilegu árásir réttlæta ekki refsingu palestínsku þjóðarinnar í heild,“ sagði hann.

„Jafnvel í stríði gilda reglur.“

Hann hvatt stríðandi fylkingar til þess á þessari ögurstundu að hörfa frá bjargbrúninni áður en ofbeldið kostaði enn fleiri mannslíf og breiddist út.

Afsagnar Guterres krafist

Gilad Erdan fastafulltrúi Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum krafðist þess í yfirlýsingu á X (Twitter) að Guterres segði af sér „þegar í stað“ sem aðalframkvæmastjóri. Hann sagði fréttamönnum að í þeim orðum að árásir Hamas „hefðu ekki gerst í tómarúmi“ fælist „réttlæting á hryðjuverkum.“

Fólk á flótta nærri Rafah í suðurhluta Gasa.
Fólk á flótta nærri Rafah í suðurhluta Gasa. Mynd:
UNICEF/Eyad El Baba

Eldsneyti á þrotum

UNRWA Palestínuflóttamannahjálpin hefur varað við því að eldnsneytisbirgðir hennar væru á þrotum og myndi það stofna öllu hjálparstarfi í hættu.

Nærri 600 þúsund manns hafa leitað skjóls í 150 starfstöðvum UNRWA á Gasa.

Frá laugardegi 21.oktober hefur þremur bílalestum með mannúðaraðstoð verið hleypt inn á Gasasvæðið, alls 54 vöruflutningabílum.

Þeir hafa flutt mat, drykkarvatn og lyf, en magnið er algjörlega ófullnægjandi, enda búa 2 milljónir manna á Gasasvæðinu.