Allsherjarþingið hvetur til vopnahlés af mannúðarástæðum

0
80
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna eftir atkvæðagreiðsluna. Mynd: UN Photo/Evan Schneider

Gasasvæðið. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti föstudaginn 27.október ályktun þar sem hvatt var til tafarlauss og varanlegs „vopnahlés af mannúðarástæðum,“ á milli Ísraels og Hamas-vígasveita á Gasasvæðinu.

Krafist er í ályktuninni um Gasasvæðið að  leyfður verði „áframhaldandi, fullnægjandi og óhindraður“ flutningur neyðaraðstoðar til almennings á svæðinu.

Þetta eru fyrstu formlegu viðbrögð Sameinuðu þjóðanna við stigmögnun átaka í Ísrael og Palestínu frá hryðjuverkaárásum Hamas 7.október.  Öryggisráðinu hefur ekki tekist að koma sér saman um afstöðu og neitunarvaldi verið beitt ítrekað til að hindra samþykkt ályktana.

Hundrað og tuttugu ríki greiddu atkvæði með ályktuninni  en fjórtán á móti. 45 ríki sátu hjá þar á meðal Ísland og fjögur Norðurlandanna. Noregur, eitt Norðurlandanna, greiddi atkvæði með tilllögunni.

Á meðal þeirra sem greiddu atkvæði á móti ályktuninni voru Ísrael og Bandaríkin.

Evrópusambandið klofnaði en Frakkar, Belgar, Írar, Lúxemborgarar, Maltverjar, Portúgalir, Slóvenar og Spánverjar greiddu atkvæði með tillögunni, rétt eins og Kínverjar og Rússar. Austurríki, Króatía, Tékkland og Ungverjaland greiddu atkvæði á móti. Bretland, Þýskaland og fjögur Norðurlandanna sátu hjá.

Tillaga Kanada náði ekki tilskildum meirihluta

Áður hafði tillaga Kanada lagt fram breytingartillögu. Þar var reynt að koma til móts við sjónarmið, td. Bandaríkjanna og Ísraels, með því að nefna Hamas-samtökin á nafn og segja að þeir sem hefðu verið numdir á brott væru gíslar.  Slíkt var ekki gert í upphaflegu tillögunni, sem Jórdanir mæltu fyrir.

Í upphaflegu tillögunnni voru „hvers kyns ofbeldisverk gegn palestínskum og ísraelskum borgurum fordæmd, þar á meðal hryðjuverk og handahófskenndar árásir“, það er að segja án greinarmunar á hernaðarlegum skotmörkum og íbúðabyggðum.

Tillaga Kanada var samþykkt með 88 atkvæðum gegn 55, en 23 sátu hjá. Hún náði engu að síður ekki fram að ganga því tvo þriðju hluta atkvæða þarf til samþykktar. Öll aðildarríki Evrópusambandsins greiddu atkvæði með tillögu Kanada.