Börn geta orðið hart úti af völdum COVID-19

0
881
COVID-19, börn
14 ára gamall drengur í New York lærir heima á meðan foreldrarnir vinna heima. Mynd: UNICEF/Lisa Adelson

Hundruð þúsunda barna gætu látist af völdum samdráttar í efnahagslífi heimsins í kjölfar COVID-19. Árangur sem náðst hefur í að minnka barnadauða gæti gengið til baka, að því er fram kemur í í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem birt var í gær.

Á sama tíma er ástæða til að vera á varðbergi vegna notkunar barna á netinu. Sífellt fleiri börn eru á netinu á meðan á COVID-19 farsóttin ríður yfir. Hætta sem steðjar að milljónum barna og ungs fólks vegna aukins skjátíma, eykst verulega.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til brýna aðgerða til að styðja börn í heiminum andspænis kreppunni þegar hann kynnti skýrsluna.

„Hingað til hafa börn sloppið að mestu við alvarlegustu einkenni veikinnar. En lífi þeirra hefur verið umturnað,“ sagði Guterres.

„Ég hvet fjölskyldur um allan heim og leiðtoga á öllum sviðum til að slá skjaldborg um börnin okkar.“

Í skýrslunni segir að félagsleg- og efnahagsleg áhrif faraldursins, ásamt viðleitni til að hefta útbreiðslu veirunnar geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir milljónir barna um allan heim.

Áhrif á kennslu

 Skólastofum um allan heim hefur verið lokað og snertir það 1.5 milljarð barna í nærri 190 ríkjum.

„Í sumum skólum er boðið upp á fjarkennslu, en hún er ekki í boði fyrir alla,“ benti aðalframkvæmdastjórinn á.

Milljónir verða af skólamáltíðum   

COVID-19, börn
Vannæring eykst þegar ekki er boðið upp á skólamáltíðir. Mynd: WFP/ Gabriela Vivacqua

Ástæða er til að hafa áhyggjur af næringu barna samkvæmt skýrslunni.  Aðalframkvæmdastjórinn minnti á að áður en faraldurinn skall á voru vannæring og hægur vöxtur barna óviðunandi.

310 milljónir barna fá ekki skólamáltíðir á meðan skólar eru lokaðir og fá af þeim sökum ekki daglegan næringarskammt.

Öryggi á heimilinu og á netinu 

 Sextíu af hundraði allra barna í heiminum búa í ríkjum þar sem gripið hefur verið til umtalsverðra lokana í samfélaginu.

Spenna innan fjölskyldna fer vaxandi og börn sem eru lokuð inni á heimilinum eru bæði fórnarlömb og vitni að heimilisofbeldi og misnotkun.

Fyrr í vikunni kynnti UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar hennar, úttekt þar sem varað var við því að nú þegar enn fleiri börn en áður nota sér tæknina í nyt til að læra og hafa félagsskap, eykst hættan á misnotkun og árásum á netinu.

COVID-19, börn
Kínverska stúlkan Xiaoy vinnur heimavinnuna og móðirin vinnur heima. Mynd: UNICEF

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lagt áherslu á samfélagslega ábyrgð samfélagsmiðlafyrirtækja á því að vernda börn á netinu.  Og á meðan COVID-19 faraldurinn herjar á heismbyggðina hefur félagslíf margra barna algjörlega snúist um skjáinn. Þau eru berskjaldaðri en fyrr fyrir kynferðislegri misnotkun og áreiti, ofbeldi og einelti.

Talið er að lokanir skóla hafi áhrif á 1.5 milljarð barna. Mörg þeirra treysta á netið til kennslu og til að stunda félagslíf.

„Í skugga COVID-19 snýst líf milljóna barna um heimilið og skjáinn,“ segir Henrietta Fore forstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.  „Við verðum að hjálpa þeim að takast á við þennan nýja veruleika.

Aukin áhætta

UNICEF bendir á að nú þegar börn hitti ekki vini og samstarfsfólk augliti til auglitis geti það leitt til aukinnar áhættu til dæmis með birtingu kynferðislega hlaðins myndefnis. Á sama tíma eykst hættan á að börn nálgist skaðlegt efni og verði fyrir net-einelti með aukinni og óskipulagðri veru á netinu.

„Við hvetjum ríkisstjórnir og fyrirtæki til að taka höndum saman um öryggi á netinu með því að efla öryggisventla og fjölga úrræðum foreldra og kennara til að leiðbeina börnum um öryggi á netinu,“ sagði Fore forstjóri UNICEF.