Ljós við endann á norrænu göngunum

0
674
COVID-19, Norðurlönd
Sést tl sólar. Mynd: Sharon McCutcheon on Unsplash

Norðurlöndin eru flest farin að sjá til sólar í kórónaveirufaraldrinum en í mismiklum mæli. Skólar og barnaheimili eru smám saman að opna í Danmörku, einangrun höfuðborgarsvæðisins í Finnlandi hefur verið aflétt og Norðmönnum verður leyft að fara í “hytta” – sveitakofa sína frá og með næstu viku. Á Íslandi er búist við að slakað verði td. á samkomubanni frá 4.maí. Svíar á hinn bóginn munu hugsanlega herða á sínum ráðstöfunum. 

Fjöldi innlagna á sjúkrahús vegna COVID-19 hefur farið heldur fækkandi í þeim ríkjum sem ætla nú að slaka á frá því í lok mars. Fjöldi þeirra sem lagður er inn á gjörgæsludeildir og þeirra sem þurfa á öndunarvél að halda, er nú innan þeirra marka sem heilbrigðiskerfið þolir.

Öll hafa Norðurlöndin farið að ráðum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og brýnt handþvotta, bil á milli fólks, samkomutakmarkanir og vinnu að heiman svo eitthvað sé nefnt.

Hins vegar telst það óvenjulegt hve ólík stefnu ríkin hafa tekið á baráttunni við COVID-19.

Harðar aðgerðir Dana

COVID-19, Norðurlönd
Mynd: Þorkell Þorkelsson, Landsspítali.

Danmörk var eitt fyrsta ríki til að koma á samkomubanni 13.mars, þegar opinberum stöðum, þar á meðal veitingahúsum og skólum, auk landamæra, var lokað. Noregur sigldi í kjölfarið en gekk ekki eins langt í lokun stórmarkaða og veitingastaða og leyfði allt að 500 manna samkomur.

Ólíkt mörgum öðrum ákvað sænska stjórnin að grípa til fárra boða og banna. Flestir vinnustaðir, verslanir, barir og veitingahús hafa verið opin og börn hafa getað gengið í skóla og sloppið við notkun fjarfundabúnaðar að mennta- og háskólum undanskildum.

Ríkisstjórnin hefur miðað við að samkomur hýsi ekki fleiri en 50. Rætt er um auknar takmarkanir en  ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst höfðað til ábyrgðar einstaklingsins. Þannig er mælst til þess að sleppa heimsóknum til aldraðra og ferðalaga um landið.

„Hytta-bannið“ hræðilega

COVID-19, Norðurlönd
„Hytta“ í Hordaland. Mynd: Madara Parma on Unsplash

Norðmönnum var ekki gefinn neinn slíkur kostur, slíkar ferðir, þar á meðal heimsóknir í “hytta” voru bannaðar. Talið er að helmingur Norðmanna hafi aðgang að slíkum sveitabústöðum. Hytta-bannið hafði því mjög táknræna merkingu sökum mikilvægisins fyrir norska þjóðarsál og sama má segja um afléttingu þess frá og með 20.aprí

Barnaheimili og skólar munu opna í Noregi fyrir mánaðamót. Stefnt er að því að allir nemendur snúi aftur í skólann fyrir sumarfrí.

Þetta þýðir ekki að allt verði eins og fyrr. Tveggja metra bil skal hafa á milli fólks og fólk má ekki hópast saman fimm eða fleiri. Hárgreiðslufólki og sjúkraþjálfurum verður leyft að taka til starfa á ný í lok apríl. En menningar- og íþróttaviðburðir eru bannaðir fram í miðjan júní. Þetta þýðir að 17.maí skrúðgöngum á þjóðhátíðardegi Norðmanna verða ekki farnar að sinni.

 Takmörkunum á ferðum til og frá höfðuborgarsvæðisins í Finnlandi, Uusimaa-héraðs, hefur verið aflétt, en íbúar hvattir til að sleppa ferðum, til dæmis í sumarbústaði. En þótt Helsinki-búar og nærsveitamenn geti að vissu leyti um frjálst höfuð strokið verður haldið fast við takmarkanir á skólahaldi og opnun bara og veitinahúsa í að minnst kosti mánuð.

Greining og rakning

COVID-19, Norðurlönd
Mynd: Þorkell Þorkelsson/Landsspitali.

Líklegra er að Íslendingar geti haldið upp á þjóðhátíð sína en Norðmenn – mánuði síðar en frændur okkar, 17.júní.  Stefna íslenskar heilbrigðisyfirvalda hefur eins og Svía verið sú að höfða til ábyrgðar einstaklinga, en grípa til banna aðeins í lengstu lög. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið hins sama og víðast hvar annars staðar: efnahagslífið hefur lagst í dvala.

Greining og rakning, einangrun og sóttkví hafa verið ær og kýr Íslendinga í baráttunni, ólíkt hinum Norðurlöndunum, að Noregi slepptum. Nú hafa yfir 10% þjóðarinnar farið í COVID próf. Takmörkunum á skólahaldi og fleiru verður aflétt að hluta frá og með 4.maí.

Flestir látist í Svíþjóð

Norðmenn og Danir hafa beitt greininum af meiri krafti en Svíar og Norðmenn en munurinn er líka sá að á meðan Danir hafa breytt um kúrs hafa Noregur og Ísland haldið áfram að greina, rekja og einangra.

Mismunandi áherslur norrænu ríkjanna verða áreiðanlega þrautrannsakaðar, en að mati Asbjörn Goul Andersen doktorsnema við Frischsenteret í Oslo er of snemmt að segja hvaða stefna hafi gefist best. Tölurnar tala þó vissulega sínu máli. Fæstir hafa látist í Finnlandi miðað við höfðatölu (18 á hverja 1 milljóni), en þar á eftir koma Íslendingar (23) Norðmenn (28), Danir (55) og loks Svíar (132).

Engir auðveldir sigrar í boði

COVID-19, Norðurlönd
Dr. Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu. Mynd: WHO

WHO hefur hvatt ríkisstjórnir og heilbrigðisyfirvöld til að gæta fyllsta öryggis þegar skipt er um gír í aðgerðunum. Dr. Hans Kluge, yfirmaður Evrópuskrifstofu WHO sagði á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í dag ekki mætti slaka á takmörkun fyrr en sýnt þætti að heilbrigðskerfi réðu við COVID-19 smit og hefðu nægilega getu til að greina, einangra, rekja og setja í sóttkví.

Aðgát skuli höfð, ekki síst á hjúkrunar- og elliheimilum og áfram verði að gæta hæfilegs bils á milli fólks, að ógleymdum handþvottum.

„Nú þegar við stöndum andspænis umskiptum, verðum við að viðurkenna að það eru engir auðveldir sigrar í boði. Framundan er margslungið og óvisst ástand. Það er engin flýtileið til eðilegs ástands,“ sagði dr. Kluge.