700 þúsund manns taka líf sitt á ári – töluverð fækkun í Evrópu

0
27
sjálfsvíg
Mynd: Akhil Nath/Unsplash

Sjálfsvíg. Alþjóðlegur dagur forvarna gegn sjálfsvígum. Þeim sem sjá ekki aðra leið en að taka líf sitt hefur fækkað töluvert í Evrópu eða um næstum 20% frá 2011 til 2019. Enn eru sjálfsvíg tröllaukið vandamál, sem sést á því að  700 þúsund manns falla fyrir eigin hendi í heiminum ári hverju. Það samsvarar nærri tvöfaldri íbúatölu Íslands. 10.september er Alþjóðlegur dagur forvarna gegn sjálfsvígum.

Að meðaltali falla 39 Íslendingar á ári fyrir eigin hendi. Arna Pálsdóttir stjórnarmaður í Pieta-samtökunum skrifar grein á visir.is  þar sem hún segir frá reynslu sinni sem dóttur manns sem tók líf sitt.

„Að baki hverju sjálfsvígi er ekki sjálfhverfa eða heigulskapur heldur þjáning, vonleysi og örvænting. Það eru til líkamleg veikindi og geðræn veikindi. Bæði geta dregið fólk til dauða. Geðræn veikindi og sjálfvíg gera ekki greinarmun á stöðu fólks eða lífsgæðum. Þau eru alls staðar, alveg eins og önnur veikindi. Umræðan um sjálfsvíg má því ekki vera tabú eða óþægileg,” skrifar Arna.

Mynd: Dan Meyers/Unsplash

20% fækkun í Evrópu

Árið 2011 létust 20 af hverjum 100 þúsund á þennan hátt í Evrópu en þetta hlutfall lækkaði í 16 árið 2019. Öll ríki Evrópu hafa tekið höndum saman við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO, World Health Organisation) um að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að fækka sjálfsvígum.

Þær fela meðal annars í sér:

  • að takmarka aðgang að hverju því sem nota má til að fremja sjálfsmorð (skodýraeitur, skotvopn, sum lyf);
  • að taka upp samstarf við fjölmiðla um ábyrgan fréttaflutning af sjálfsvígum;
  • að hlúa að félagslegri og tilfinningalegri lífsleikni;
  • snemmbær greining, mat og áframhaldandi umönnum þeirra sem sýna af sér sjálfsvígs-hegðun.

sögn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar falla 700 þúsund fyrir eigin hendi, en hins vegar má reikna með sjálfsvígstilraunir séu 20 sinnum fleiri en þær sem heppnast. Sjálfsmorð var fjórða helsta dánarorsök í aldurshópnum 15–29 ára í heiminum árið 2019.

Sjálfsvíg eiga sér stað um allan heim. Raunar má rekja 77% þeirra til lág- og meðaltekjuríkja.

Sjálfsvíg
Mynd: Nick Fewings/Unsplash

Sjálfsvígsforvarnir á Norðurlöndum

 Flestar rannsóknir benda ekki til sérstaklega mikillar tilhneigingar til sjálfsvígs á Norðurlöndum. Ekki hefur orðið teljandi breyting á sjálfsvígstíðni frá 2011 til 2019. Ríkin virðist vera nærri miðgildi eða undir því samkvæmt tölum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu yfir árin 2014 til 2017. Á Íslandi eru sjálfsvíg 12 af hverjum 100 þúsund en meðaltalið í Evrópu 16.

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur kynnt stefnuskrá um að koma í veg fyrir öll sjálfsmorð. Markmiðið til 2025 er að draga úr tíðninni um 25%.

Löngu hafa verið sýnd fram á tengsl á milli sjálfsvíga og geðraskana (sérstaklega þunglyndis og alkóhólisma) og fyrri sjálfsmorðstilrauna í hátekjuríkjum. Oft er gripið til óyndisúrræðis þegar kreppir að og viðkomandi getur ekki tekist á við álag sem fylgir fjárhagsvanda, sambandsslitum eða látlausu  sársauka og veikindum.

Að auki eru átök, hamfarir, ofbeldi, misnotkun, tap og einangrun oft tengd sjálfsvígshegðun. Sjálfsvígstíðni er einnig há í hópum sem standa höllum fæti og/eða sæta mismunum. Má nefna sem dæmi flóttamenn og farandfólk, frumbyggja, lesbíur, hommar, tvíkynhneigða, trans- og intersexfólk (LGBTI) og fanga.

Alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga er 10.september á vegum Alþjóðasamtakanna International Association for Suicide Prevention (IASP) með stuðningi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir getur hringt í Pieta-samtökin. Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.

Minnt skal á hjálparsíma Rauða krossins1717 og netspjall 1717.is

Sjá einng hér og hér.