Verg þjóðarhamingja til umræðu

0
497

Bhutan

3. apríl 2012: Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti í dag eftir efnahagslegum mælikvarða sem tæki tillit til félags- og umhverfisþátta.

“Verg þjóðarframleiðsla (GDP) hefur lengi verið notuð til að vega á meta hagkerfi og stjórnmálamenn. Engu að síður er hvorki tekið tillit til félaglegra né umhverfislegra þátta svokallaðra framfara,” sagði Ban Ki-moon á fundi háttsettra stjórnmála- og embættismanna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Konungsríkið Bútan bauð til fundarins en fundarefnið var: “Hamingja og velferð: að skilgreina ný efnahagleg viðmið.” Fundinn sóttu hundruð fulltrúa ríkisstjórna, trúfélaga, háskólasamfélags og borgaralegs samfélags.

Konungsríkið í Himalajafjöllunum fitjaði upp á nýjum mælikvarða yfir hagsæld þjóðarinnar á áttunda áratugnum, þar sem aðaláherslan er á velferð fólksins fremur en efnahagslega framleiðni.

Áhugi hefur aukist á svokallaðri “vergri þjóðarhamingju” á undanförnum árum. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti meðal annars ályktun 2011 um að verg þjóðarframleiðsla “endurspeglaði ekki nægilega hagsæld íbúa hvers ríkis.”

“Við þurfum á nýjum efnahagslegum viðmiðum sem taka tillit til hinna þriggja stoða sjálfbærar þróunar. Félagsleg- efnahagsleg- og umhverfisvæn hagsæld eru órjúfanleg heild. Sameiginlega mynda þessir þættir verga hnattræna hamingju,” sagði framkvæmdastjórinn.

Ban lauk lofsorði á ríkisstjórn Bútan fyrir fundarboðið og sagði að önnur ríki þyrftu að kanna nýjar leiðir til að meta velmegun sem næði til fleiri þátta en veraldlegra gæða. Nefndi hann sem dæmi Costa Rica sem leggur mikla áherslu á umhverfislega ábyrga þróun og Bretland en þar hefur hagstofan gert tilraunir með að mæla “hagsæld þjóðarinnar.”

Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að sjálfbær þróun væri á margslunginn hátt tengd hamngju og velsæld og lagði áherslu á að Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna í júní í sumar um sjálfbæra þróun, svokölluð Rio + 20 ráðstefnan, þyrfti að endurspegla þessi tengsl.

Konungsríkið Bútan í Himalaja-fjöllunum er forysturíki í hamingjumælingum.SÞ-mynd: Gill Fickling