Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðoanna á alþjóðlegum degi til að berjast gegn myndun eyðimarka og þurrkum.

0
398
Þema dagsins að þessu sinni er: “Að berjast gegn uppblæstri í þágu sjálfbærs landbúnaðar.” Þetta er ámnning til okkar um mikilvægi landsins sem arfleifðar okkar allra sem engin mannvera getur verið án. Verulegur hluti ræktanlegs lands verður uppblæstri að bráð og hefur það skaðvænleg áhrif á líf fólks og efnahagsþróun ríkja. Uppblástur veldur efnahagslegum skakkaföllum í landbúnaði, vandræðum á matvælamarkaði og ýtir undir félagslegan og pólitískan óstöðugleika.

 Hefðbundin notkun lands er í uppnámi vegna aukinnar eftirspurnar eftir landbúnaðarafurðum eftir því sem fólki fjölgar. Nýjar ræktunaraðferðir, til dæmis þegar aðeins ein tegund er ræktuð, bæta gráu ofan á svart. Sífellt meira land er nýtt án nægilegs tillits til varanleika og fátækir bændur og hirðingjar eru flæmdir út á jaðarsvæði. Konur verða sérstaklega fyrir barðinu á uppblæstri. Þær verja tíma sínum og kröftum í að rækta, og nýta landið og koma matvælum og öðrum afurðum landsins í verð.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um að berjast gegn útbreiðslu eyðimarka tekur á heildrænan hátt á þessum málum en þar er reynt að tengja annars vegar viðleitni til að minnka fátækt og hins vegar vernd vistkerfa á þurrum svæðum. Í dag er sáttmálinn eini alþjóðlegi lagaramminn sem snýst um að endurheimta þurr og uppblásin landsvæði og gæti verið undirstaða langtíma lausna til að auka matvælaframleiðslu. Þessi ónotuðu svæði gætu einni verið nýtt til framleiðslu lífræns eldsneytis og þannig fært íbúunum nýjan ávinning. 

Það er kominn tími til að Alþjóðasamfélagið viðurkenni í verki að þurr landsvæði og jaðarsvæði þar sem nærri helmingur fátæklinga heimsins búa, eru ekki órækt. Þau eru þvert á móti tækifæri til aukins landbúnaðar bæði fyrir ramleiðslu matvæla og eldsneytis.

Við skulum ítreka skuldbindingar okkar um að snúa við blaðinu og endurheimta uppblásið land og eyðimerkur. Við skulum tryggja að tíu ára áætlunin sem samþykkt var á síðasta ári í Madrid njóti fulls stuðnings og verði hrint í framkvæmd. Við skulum ítreka heit okkar um að vinna þessu verkefni brautargengi í dag á þessum Alþjóðdegi til að berjast gegn myndun eyðimarka og þurrkum. 

Ban Ki-moon