ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRANS Á ALÞJÓÐLEGUM DEGI ELDRA FÓLKS, 1. október 2006

0
502

Á tíunda og síðasta ári mínu sem framkvæmdastjóri eftir heila starfsævi hjá Sameinuðu þjóðunum, hef ég persónulegan áhuga á hag eldra fólks og að það geti uppfyllt drauma sína. En ég er aðeins einn í hópi 600 milljóna manna í heiminum yfir sextugt. Eftir því sem lífslíkur fólks um allan heim aukast, er það í þágu alls mannkyns að eldra fólk sé skapandi, virkt og heilbrigt. Fólk um víða veröld hefur hag af því að efla eldri kynslóðina sem hefur alla burði til að leggja mikið af mörkum í þróunarmálum og í þeirri viðleitni að byggja upp frjórri, friðsamari og varanlegri þjóðfélög.  

Af þessum sökum er þema Alþjóðlegs dags eldra fólks að þessu sinni: “Að auka lífsgæði eldra fólks: Að efla framgang  áætlana Sameinuðu þjóðanna á heimsvísu.”  Í þessu felst ákall til allra samfélaga að beita sér fyrir stefnumörkun og áætlunum sem miða að eldra fólk búi við aðstæður sem fjölgi tækifærum  þeirra, auki sjálfstæði þeirra og veiti þeim fullnægjandi stuðning og umönnun eftir því sem það eldist.

Í þessu felst að tryggja húsaskjól, samgöngur og lífskjör til að eldra fólkið  viðhaldi sjálfstæði sínu eins lengi og unnt er og fái að eldast í sínu eigin umhverfi og vera jafnframt virkt innan sinna samfélaga. Ekki er síður mikilvægt að viðurkenna og bera virðingu fyrir reisn, áhrifavaldi, visku og framlagi eldra fólks í öllum samfélögum, sérstaklega í sjálfboðaliðastarfi  og sem umönnunaraðilar margra kynslóða. Og þetta felur einnig í sér að stuðla að bættri ímynd öldrunar. 

Við skulum nú á Alþjóðlegum degi eldra fólks, hvetja ríkisstjórnir, einkageirann, félagasamtök og fólk hvarvetna til að byggja upp þjóðfélag fyrir alla aldurshópa, eins og stefnt er að í Alþjóðlegu Madridar-aðgerðaáætluninni um öldrun og í samræmi við Þúsaldarmarkmiðin um þróun og víðtækari þróunaráætlanir á heimsvísu. Við getum í sameiningu og við verðum að tryggja að fólk lifi ekki aðeins lengra lífi, heldur einnig betra, auðugara, frjórra og meira fullnægjandi lífi.

Kofi A. Annan