Ban: „Berið hag mannkyns fyrir brjósti“

0
538
SGFriday web RS

SGFriday web RS

11.desember 2015. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti samningamenn á loftslagsráðstefnu samtakanna í París til að taka lokaákvarðanir í viðræðunum með hagsmuni alls heimsins að leiðarljósi.

„Nú er ekki tíminn til að tala um þrönga hagsmuni þjóða. Góðar lausnir á heimsvísu munu greiða fyrir góðum staðbundnum lausnum,“ sagði Ban og hvatti öll ríki til að taka „lokaákvarðanir í þágu mannkynsins.“

Aðalframkvæmdastjórinn sagði að nú þegar sólarhringur væri til stofna til að ljúka samningi, væri hann ánægður með árangur viðræðnanna fram að þessu.

„Ég hef orðið vitni að mörgum erfiðum milliríkjaviðræðum, en þessar viðræður eru þær langmikilvægustu fyrir mannkynið,“ sagði hann og bætti við „Það eru aðeins fáar klukkustundir til stefnu.“

Ban kom fram á blaðamannafundi ásamt franska utanríkisráðherranum Laurent Fabius á ráðstefnustaðnum í Le Bourget í útjaðri Parísar.
Ban sagði að ýmis mál væru óútkljáð þar á meðal mismunandi ábyrgð ríkja, hver langt eigi að ganga og hvernig fjármagna bæri viðnám við loftslagsbreytingum, en bætti við að þökk væri margra ára samningaviðræðum hefðu fundist „mjög góðar lausnir.“

„Samningsuppkastið í morgun var orðið miklu styttra,“ sagði Ban til útskýringar. „Það er mjög góður grunnur að frekari viðræðum. Svigum hefur fækkað og aðeins örfáir eru eftir.“ Svigar eru til marks um að enn ríki ágreiningur.

„Við höfum unnið mikið starf undanfarna daga,“ sagði Fabius á blaðamannafundinum. „Það má orða það þannig að við séum komin langt á leið og ég er bjartsýnn á að viðræðurnar skili metnaðarfullum samningi. Undirbúningurinn hefur verið góður og ég vona að klukkan níu í fyrramálið (laugardag 12.desember) geti ég skilað samningi sem ég er viss um að verði samþykktur og verði stórt skref fram á við.“