Ban: COP21 lofar góðu en þarf að ganga lengra

0
468
COP21opening web1

COP21opening web1
30.nóvember 2015. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skoraði í dag á leiðtoga ríkja heims að axla ábyrgð í loftslagsmálum því pólitískt tækifæri á borð við þetta, kemur ef til vil ekki aftur.”

Ban lét þessi orð falla þegar hann ávarpaði 150 oddvita ríkja í opnunarræðu sinni á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hófst í París í dag.
„Þið eruð saman komin til að skrifa handritið að framtíðinni,“ sagði Ban. „Við höfum aldrei gengist undir aðra eins þolraun, en við höfum heldur aldrei fengið annað eins tækifæri. Það er á ykkar valdi að tryggja farsæld þessarar og næstu kynslóða.“

Ban bætti við að Parísarfundurinn yrði að marka tímamót og flytja heiminum þann boðskap að framundan væri minni losun koltvísýrings og viðnám gegn lotftslagsbreytingum. „Það verður ekki aftur snúið.“

Fyrir ráðstefnuna, COP21, hafa ríki heims kynnt landsmarkmið sín í loftslagsmálum og þau mynda grunn samkomulagsins sem stefnt er að eftir 2 vikur.

Fjöldi ríkja sem skilað hefur landsmarkmiðum er kominn yfir 180, að sögn Ban, og þau eru ábyrg fyrir nánast allri losun gastegunda í heiminum sem valda gróðurhúsaáhrifum.

„Þetta er góð byrjun,“ segir Ban, „en við þurfum að ganga miklu lengra og hraðar ef við ætlum að halda hlýnun jarðar innan tveggjar gráða á Celsius.“

Ban sagði að árangur COP21 yrði metinn eftir því hvort það takist að gera varanlegan og öflugan samning, sem fæli í sér samstöðu með hinum fátækustu. Þá lagði hann áherslu á að samningurinn yrði að vera trúverðugur.

„Þróuðum ríkjum ber að standa við fyrirheit um að árlega renna 100 milljarðar Bandaríkjadala til þróunarríkja frá og með 2020,“ sagði hann. „Nýr samningur verður einnig að fela í sér gagnsætt ferli til að mæla, fylgjast með og greina frá árangri.“

Mynd: Ban ásamt Francois Hollande, forseta Frakklands og Laurent Fabius, utanríkisráðherra og forseta COP21. SÞ-mynd/Rick Bajornas.