Ban hvetur til friðar 2014

0
487

 ki-moon-pconf

17.desember 2013. Árið 2013 var ár mikilla skakkafalla að mati Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra  Sameinuðu þjóðanna.

Ban sagði á árlegum blaðamannafundi þar sem hann gerir upp árið að árið 2013 hafi því miður verið ár meiri afturfarar „en nokkurn hefði órað“ og ber þar hæst áframhaldandi átök í sýrlandi og „yfirvofandi hætta á voðaverkum“ í Mið-Afríkulýðveldinu auk fjölda annara stórvandamála um allan heim.
Ban skoraði á veraldarleiðtoga að fara að dæmi Nelsons heitins Mandela og koma fólki til varnar árið 2014. “Það er ekkert sem ég vildi frekar sjá árið 2014 en að oddvitar heimsins tækju sér hann til fyrirmyndar og öxluðu siðferðilega og pólitíska ábyrgð sína,“ sagði Ban á blaðamannafundi  í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

Framkvæmdastjórinn beindi sjónum sínum að ástandinu í Sýrlandi en þar hafa hundrað þúsund manns látist og 8 milljónir hrakist frá heimilum sínum, þar af tvær milljónir til annara landa, frá því átök brutust út í mars 2011.
“Sýrlendingar geta ekki þolað annað ár, ekki annan mánuð, ekki annan dag voðaverka og eyðileggingar,“ sagði hann. „Við ættum öll að vera verulega áhyggjufull af þeim niðurstöðum að efnavopn hafi ekki aðeins verið notað í árásinni á Ghouta í nágrenni Damaskus, heldur einnig oftar gegn óbreyttum borgurum.“

Ban gerði ástandið í Mið-Afríkulýðveldinu að umtalsefni. „Ég hef þungar áhyggjur af yfirvofandi hættu á voðaverkum. Ég hvet bráðabirgðayfirvöld landsins til að vernda fólkið. Ég hvet leiðtoga trúarhópa og oddvita einstakra samfélaga að gera sitt til að hindra sundrungu.“

Átök hafa verið í landinu frá því Séléka-uppreisnarmenn stökktu François Bozizé, forseta á flótta í mars. Bráðabirgðastjórn hefur síðan verið falið að koma á friði að nýju, en Ban lagði áherslu á að hún hefði ekki fest sig í sessi.
Þúsundir hafa látist og 600 þúsund flúið heimili sín í átökum sem sífellt meir snúast upp í átök múslima og kristinna manna.

Ekki gekk þó allt á afturfótunum 2013. Framkvæmdastjórinn nefndi sem jákvæðar hliðar, að tekist hefði „tímamóta“samningur um eyðingu efnavopna Sýrlendinga, samþykkt vopnaviðskiptasamningsins á Allsherjarþinginu og bráðabirgðasamningur fimm aðildarríkja öryggisráðsins og Þýskalands annars vegar og Írans hins vegar um kjarnorkuáætlun síðastnefnda ríkisins.