Ban ræðir leiðtogafundinn í Reykjavík

0
498
Ban Euro

Ban Euro

5.október 2016. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna mun ávarpa ráðstefnu um Arfleifð og áhrif leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjovs á Íslandi 1986 laugardaginn 8.október.

Þá flytur Ban aðalræðuna á þingi Arctic Circle í Reykjavík sama dag. Á ráðstefnunni í Hátíðarsal Háskóla Íslands, sem er öllum opin á meðan húsrúm leyfir, verður horft til áhrifa fundarins á alþjóðavísu og heima fyrir en fundurinn er af mörgum talinn hafa markað upphafið að endalokum kalda stríðsins. Þá verður horft fram á við og rætt um helstu áskoranir í alþjóðamálum. 

Opnunarávörp flytja Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti Íslands. Fyrirlesarar verða Albert Jónsson sendiherra og Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og pallborðsumræður verða að loknum fyrirlestrum þeirra.

Utanríkisráðuneytið stendur að ráðstefnunni í samstarfi við Reykjavíkurborg og HÖFÐA Friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Hún verður haldin í Hátíðarsal Háskóla Íslands, nk. laugardag frá kl. 15:00 – 18:00, og fer fram á íslensku og ensku.

Ban páfiRáðstefnan er haldin í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá leiðtogafundi Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov í Höfða, verður haldin í Háskóla Íslands, laugardaginn 8. október nk.

Ban Ki-moon kemur til Íslands eftir að hafa sótt ráðstefnu um Afganistan í Brussel, heimsótt Evrópuþingið í Strasbourg í Frakklandi og heimsótt Þýskaland og Ítalíu þar sem hann ma. ræddi við Frans páfa. Þetta er önnur heimsókn Ban til Íslands en hann lætur af embætti um næstu áramót.

Myndir UN Photo/Rick Bajornas.