Búist við að Guterres verði arftaki Ban

0
503
guterres1

guterres1
6.október 2016. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman til fundar í dag og er búist við að samþykkt verði einróma að leggja til að António Guterres, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals verði næsti aðalframkvæmdastjóri samtakanna.

Öryggisráðið hefur verið boðað til fundar klukkan fjögur að íslenskum tíma. Vitali Churkin, sendiherra Rússlands sem situr í forsæti ráðsins í októbermánuði skýrði frá því í gær, (sjá meðfylgjandi myndband) eftir óformlega atkvæðagreiðslu í ráðinu, að Guterres hefði náð afgerandi forystu.

Atkvæðagreiðslan í gær var sú fyrsta þar sem reyndi á hvort neitunarvaldi yrði beitt. Guterres fékk langflest atkvæði af frambjóðendunum tólf og enginn beitti neitunarvaldi. Þau fimm ríki sem eiga fast sæti í Öryggisráðinu geta beitt neitunarvaldi.

Að lokinni formlegri atkvæðagreiðslu í dag verður nafn Guterres sent til Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem greiðir formlega atkvæði.
Mogens Lykketoft, forseti 70.Allsherjarþingsins beitt sér fyrir opnari ferli við val aðalaframkvæmdastjóra.

„Ég er mjög stoltur af því að við höfum breytt vinnubrögðum og að valferlið hefur verið gagnsærra en nokkru sinnifyrr. Að þessu sinni gat almenningur í heiminum fylgst með þegar frambjóðendur fengu tvo tíma til að kynna sig fyrir Allsherjarþinginu og tóku þátt í sameiginlegum málfundum. Ég tel að með þessu móti hafi almenningur fengið að vera með í umræðunni um framtíð Sameinuðu þjóðanna.“

Alls buðu 12 sig fram til starfsins, en Ban Ki-moon sem gegnt hefur starfi aðalframkvæmdastjóra í tíu ár lætur af störfum um áramótin.
António Guterres, var forsætisráðherra Portúgals frá 1995 til 2002. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna 2005 og gegnd því starfi til ársloka síðasta árs, 2015.

Mynd: António Guterres. UN Photo/Manuel Elias