Ban tilkynnt fullgilding á loftslagssamningi

0
475
Iceland flags

Iceland flags

23.september 2016.  Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra afhenti í gær Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fullgildingarskjal því til staðfestingar að Ísland hafi fullgilt Parísar-samninginn um loftslagsmál. 

Lilja BanNú hafa um 60 ríki fullgilt samninginn og er sá fjöldi ríkja samanlagt ábyrgur fyrir um 48% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Til að samningurinn taki gildi þarf fullgildingu frá ríkjum sem samanlagt losa a.m.k. 55% af gróðurhúsalofttegundum.

Samstarfssamningur Íslands og WFP

Þá undirrituðu utanríkisráðherra og Ertharin Cousin, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), í gær samning um framlög Íslands til verkefna WFP sem miða að því að ná öðru Heimsmarkmiðinu, um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030. WFP er áherslustofnun Íslendinga í mannúðarmálum og er samstarfssamningurinn sá fyrsti sem Ísland gerir við stofnunina.

Lilja Cousins„Með þessum samningi við Matvælaáætlunina erum við að fylgja eftir skuldbindingum Íslands um að veita fyrirsjáanleg og sveigjanleg framlög sem miða að því að bjarga mannslífum og styðja þá sem mest þarfnast mannúðaraðstoðar,” sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

„Þegar neyðarástand skapast þá metur WFP það mjög mikils að eiga samstarfsaðila eins og Íslendinga sem gera okkur kleift að bregðast skjótt og vel við neyð allra þeirra milljóna manna sem búa við átök eða náttúruhamfarir,” sagði Ertharin Cousin, framkvæmdastjóri WFP 

Á næstu fimm árum greiðir Ísland á grundvelli samningsins að minnsta kosti 250 milljónir króna (2,2 milljónir bandaríkjadala) í almenn framlög. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir eyrnamerktum framlögum í samræmi við áform íslenskra stjórnvalda um beinar greiðslur til viðbótar við almennu framlögin. 

WFP hefur frá árinu 2003 notið góðs af viðbragðssamningi við Íslensku friðargæsluna sem hefur ráðið íslenska sérfræðinga til starfa hjá stofnuninni. Með nýja samstarfssamningnum verður viðbragðssamningurinn útvíkkaður til að auka getu WFP til að bregðast við hættuástandi og styrkja aðgerðir í tengslum við matvælaaðstoð. 

(Fréttatilkynningar frá Utanríkisráðuneytinu og WFP).

Myndir: Fáni Íslands við höfuðstöðvar SÞ í New York. UN Photo/Loey Felipe

Lilja og Ban Ki-moon, Lilja og Cousins. Utanríkisráðuneytð.