Borgarastríðið í Sýrlandi: Ógn á heimsvísu

0
449

Sýrland

1.júlí. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna átelur harðlega sinnulausi ríkja heims gagnvart Sýrlandi.

Í grein sem birt er í stórblöðum víða um heim, þar á meðal Fréttablaðinu á Íslandi, varar Ban við þeirri hættu að átakin breiðist enn út en nú þegar hefur ófriðurinn breiðst út til Íraks og Líbanons. „Alþjóðasamfélagið má ekki snúa baki við sýrlensku þjóðinni og láta þennan heimshluta verða endalausri grimmd og vargöld að bráð“, skrifar Ban. Hér fylgir greinin í Fréttablaðinu. 

Syria Refugee ChildEnn syrtir í álinn í Sýrlandi og blóðugt borgarastríðið í landinu teygir nú anga sína út fyrir landamærin. Hætt er við að sú hugsun sé að skjóta rótum að lítið sé hægt að gera annað en að selja stríðandi fylkingum vopn og horfa á þær brytja hvor aðra niður. Alþjóðasamfélagið má ekki snúa baki við sýrlensku þjóðinni og láta þennan heimshluta verða endalausri grimmd og vargöld að bráð.

Tala látinna er líklega komin vel yfir 150 þúsund. Körlum, konum og jafnvel börnum er hrúgað inn í fangelsi og frumstæðar dýflissur sem eru að springa utan af þeim. Aftökur og hroðalegar pyntingar eru algengar. Fólk deyr einnig úr hungri og smitsjúkdómum sem voru fátíðir þar til fyrir skemmstu. Miðborgir hafa verið lagðar í rúst og sama máli gegnir um sumt af því merkasta sem mannkynið hefur skapað á sviði húsagerðarlistar og menningar. Sýrland er í vaxandi mæli hrunið ríki.

Syria banSameinuðu þjóðirnar hafa lagt hart að sér að takast á við hinar djúpu rætur átakanna og skelfilegar afleiðingar þeirra. Mannúðaraðstoð okkar og önnur viðleitni bjargar mannslífum og dregur úr þjáningum. En okkur hefur ekki tekist að ná aðalmarkmiði okkar, að binda enda á ófriðinn. Þær litlu friðarvonir, sem voru til staðar, hafa fuðrað upp á báli ofbeldis og flokkadrátta trúarhópa í Írak. Nú er hætta á að tvö en ekki eitt meiriháttar ríki sundrist.

Eftirfarandi sex atriði geta vísað veginn til framtíðar:

Í fyrsta lagi verður að binda enda á ofbeldið. Það er ábyrgðarlaust af erlendum öflum að veita áframhaldandi hernaðaraðstoð til aðila sem fremja óhæfuverk og brjóta bæði grundvallarsjónarmið mannréttinda og alþjóðalög. Ég hef hvatt Öryggisráðið til að koma á vopnasölubanni. Deiluaðilar verða að setjast niður hvorir andspænis öðrum við samningaborðið. Hve margir þurfa að deyja áður en það gerist?

syrland 1 frett storÍ öðru lagi verður að vernda almenning. Sameinuðu þjóðirnar halda áfram að veita og stjórna mannúðaraðstoð. En ríkisstjórnin heldur áfram að setja blygðunarlausar skorður við aðstoð. Dæmi eru um að lyf séu fjarlægð þegar neyðaraðstoð er send í bílalestum. Heilu samfélögin eru svelt til að refsa þeim fyrir fylgispekt við stjórnarandstöðuna. Sumir hópar uppreisnarmanna hafa einnig gert sig seka um að beita hungurvopninu. Að auki hefur alþjóðasamfélagið aðeins lagt fram þriðjung af því sem til þarf til að hjálpa nauðstöddum. Ég hvet enn til að umsátri verði aflétt og mannúðaraðstoð sé hvarvetna hleypt í gegnum víglínur og alþjóðleg landamæri.

Í þriðja lagi verður pólitískt ferli að hefjast af alvöru. Stríðandi fylkingar komu kerfisbundið í veg fyrir að þrotlaus friðarviðleitni tveggja af hæfustu stjórnarerindrekum heims, Kofis Annan og Lakhdars Brahimi, skilaði árangri. Forsetakosningar fyrr í þessum mánuði voru enn eitt áfallið en þær fullnægðu ekki einu sinni einföldustu skilyrðum fyrir því að atkvæðagreiðsla geti talist trúverðug. Senn mun ég skipa nýjan sérstakan erindreka til að leita pólitískrar lausnar og umskipta í átt til nýs Sýrlands. Ríki í þessum heimshluta bera sértaka ábyrgð og ber að hjálpa til við að binda enda á stríðið. Ég lýsi ánægju með nýleg samskipti Írans og Sádi-Arabíu og vona að þeim auðnist að efla traust og láta af skaðlegri samkeppni sem hefur haft alvarlegar afleiðingar í Sýrlandi, Írak, Líbanon og víðar. Hópar innan raða borgaralegs samfélags í Sýrlandi hafa af miklu hugrekki reynt að halda samfélaginu í einu lagi og haldið opnum samskiptaleiðum og sýnt innbyrðis samstöðu.

SyriaÍ fjórða lagi þarf að tryggja að hinir seku séu látnir sæta ábyrgð fyrir alvarlega glæpi. Í síðasta mánuði tókst ekki að tryggja samþykki ályktunar um að veita Alþjóðlaglæpadómstólnum umboð til að fjalla um átökin. Ég hvet þau ríki, sem stóðu í veginum fyrir samþykktinni en segjast engu að síður vilja að sekir séu dregnir til ábyrgðar, til að stinga upp á trúverðugum valkosti við Alþjóðaglæpadómstólinn. Sýrlenska þjóðin á réttlæti skilið og grípa þarf til aðgerða gegn refsileysi.

Í fimmta lagi ber að ljúka eyðingu efnavopna í Sýrlandi. Sameinuðu þjóðirnar og Samtökin um bann við efnavopnum hafa unnið saman við að eyða öllum efnavopnum sem tilkynnt hefur verið um eða fjarlægja þau frá landinu. Mörg aðildarríki hafa veitt bráðnauðsynlega aðstoð og stuðning við þetta erfiða verk á styrjaldarsvæði.

Í sjötta lagi þarf að taka með í reikninginn allan þennan heimshluta, þar á meðal þá ógn sem stafar af öfgamönnum. Erlendir vígamenn berjast með báðum aðilum og virka sem olía á eld ofbeldis og gagnkvæms haturs trúarhópa. Við ættum hvorki að fallast fyrirvarlaust á málflutning Sýrlandsstjórnar sem útmálar alla andstæðinga sína sem hryðjuverkamenn, né að líta fram hjá raunverulegri hættu á hryðjuverkum í Sýrlandi. Binda verður enda á fjármögnun og annan stuðning í heiminum við Jabhat al-Nusra, Íslamska ríkið Írak og al-Sham. Öllum samfélögum í Írak stafar einnig hætta af ISIS; það skiptir sköpum ef allir leiðtogar heimshlutans, jafnt pólitískir sem trúarlegir, hvetja til stillingar til að koma í veg fyrir hrinu árása og gagnárása.

syria press releaseÁ þessari stundu er sú bábilja að hernaðarsigur geti unnist, stærsti Þrándur í götu þess að bundinn sé endi á stríðið í Sýrlandi. Ég vísa á bug þeirri túlkun atburða að ríkisstjórn Sýrlands sé „að vinna“. Það er ekki sigur að leggja undir sig landsvæði með því að beita loftárásum á þéttbýl svæði byggð óbreyttum borgurum. Það er ekki sigur að svelta samfélög, sem fangelsuð eru í herkví, til uppgjafar. Jafnvel þótt annar styrjaldaraðilinn kunni að hafa yfirhöndina til skamms tíma litið, hefur hrikalegt mannfallið sáð fræjum komandi ófriðar.

Stórhættulegt sundurlyndi trúarhópa, gríðarlegur flóttamannastraumur, dagleg myrkraverk og óstöðugleiki sem breiðist út valda því að borgarastríðið í Sýrlandi er orðið ógn á heimsvísu. Öll þau gildi sem við stöndum fyrir og sjálf ástæðan fyrir tilvist Sameinuðu þjóðanna er í veði í þeirri gereyðingu sem Sýrland hefur orðið að bráð. Það er löngu kominn tími til að alþjóðasamfélagið, og þá sérstaklega Öryggisráðið, axli ábyrgð sína.