Busl en ekki rusl á Evróvisjón í Liverpool

0
126

Heimsmarkmið. Sjálfbærni. Augu Evrópubúa munu hvíla á Liverpool næstu vikuna þegar Bretar hýsa Evrópusöngvakeppnina Evróvisjón 2023 fyrir hönd Úkraínu.

Þúsundir manna munu sækja Liverpool-borg heim auk þeirra milljóna sem fylgjast með úr sófanum heima. Borgaryfirvöld ætla að nota athyglina til að beina kastljósinu að sjálfbærni. Í fyrsta skipti í 67 ára sögu keppninnar verða áhrif hennar á umhverfið mæld.

Sjálfbærni í forgrunni

BBC, breska sjónvarpið og Liverpool hafa komist að samkomulagi um að meta sjálfbærni Evrovisjón í þeirri von að búa til viðmið fyrir þær borgir sem fylgja munu í kjölfar „Bítlaborgarinnar” og safna talnaefni og þekkingu fyrir komandi keppnir.

„Í fyrsta skipti munum við hafa skilning á því hvaða áhrif atburður af þessu tagi hefur. Þar með erum við betur fær um að taka betri ákvarðanir með sjálfbærni að leiðarljósi við skipulagningu slíkra atburða í framtíðinni,” segir Joanne Anderson fráfarandi borgarstjóri Liverpool í viðtali við vefsíðu UNRIC.

Reynt er að gera keppnina eins umhverfisvæna og kostur er. Leitast er við að spara orku, minnka sóun og hvatt til að nota almenningssamgöngutæki.

„Þetta er í samræmi við skuldbindingar Liverpool um að fylgja ákvæðum Parísarsamningsins um viðnám við loftslagsbreytingum, auk Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Við stefnum að því að gera okkar besta, sem borg, til að þeim verði náð,“ segir Joanne Anderson.

Tónleikasalurinn er knúinn grænum og kolefnissnauðum orkugjöfum og búinn sólarorkunemum. Regnvatni er safnað til notkunar á salernum. Á hinn bóginn er gas notað til hitunar. Borgin segir þetta óumflýjanlegt í núverandi stöðu, en til stendur að breyta þessu.

Liverpool stefnir einnig að því að tryggja að allir samfélagshópar séu virkir í Evróvisjón og að keppnin hafi jákvæð félagsleg áhrif.

„Ég vil ekki að nokkrum borgarbúa finnist þeir ekki eiga hlutdeild í Evróvisjón nú þegar keppnin er haldin í borginni,” segir Anderson borgarstýra.

 Minnka, endurnota, endurnýta

Joanne Anderson borgarstýra Liverpool.
Joanne Anderson borgarstýra Liverpool. Mynd: Liverpool City Council

Hringrás og minnkun sóunnar hafa verið leiðarljós skipulagningar keppninnar. Túrkís-blái dregillinn, sem keppendur ganga á verður endurunninn að keppni lokinni.

Málningarvörur og efni sem gengur af eftir notkun verða gefin félagslega reknum fyrirtækjum í borginni. Leikmunir og sviðsmyndir verða gefin skólum og leikfélögum eða boðin upp. Þá verður lögð áhersla flokkun úrgangs. Flöskur, dósir, pappír og pappi eiga hvern sinn stað. Þá verða vatnsbrunnar víða til að hindra flöskusóun.

„Við kappkostum við að endurnýta- og nota og við munum einnig safna upplýsingum um það,“ segir Anderson borgarstýra.

Þá verður gögnum safnað og reynt að glöggva sig á umhverfisáhrifum ferða flytjenda og starfsfólks, og tölfræði sem safnað er við miðasölu verður notuð til að meta ferðir áhorfenda.

Göngustígar hafa verið lagðir á milli helstu staða.

„Liverpool er mjög gönguvæn borg,” segir Anderson og bætir við að  „við munum bjóða upp á góð samgönguúrræði, þar á meðal hjól og rafskútur.“

Borgin hefur komið fyrir blómum í miðborginni til að draga óbeint úr umferð og prýða umhverfið. Einnig er verið að gróðursetja villt blóm á auðum svæðum og dreifa grasfræjum.

Að búa til viðmið fyrir borgir og síðari keppnir

Árið 2019 samþykktu allir flokkar í borgarstjórn Liverpool samhljóða að stefna að kolefnishlutleysi fyrir 2030.  Talið er að Liverpool hafi þegar tekist að minnka losun um 840 þúsund tonn af koltvísýringi frá 2005. Rúmlega hálf milljón trjáa hafa vrið gróðursett á síðustu 25 árum.

„Evróvisjón hefur nú þegar gefið okkur tækifæri til að fitja upp á breiðari samræðu um sjálfbærni, sérstaklega í viðburða-geiranum,“ segir Anderson borgarstýra, sem segist vonast til að borginni muni í framtíðinni takast að halda viðburði sem hafi enga losun í för með sér.