Sameinuðu þjóðirnar óska eftir fjárstuðningi við flóttamenn frá Súdan

0
151
Súdan flóttamenn
Hundruð nýkominna flóttamanna frá Súdan bíða úthlutunar aðstoðar frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Tsjad. Mynd: © UNHCR/Colin Delfosse

Súdan. Flóttamenn. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og samstarfsaðilar hafa farið fram á 445 milljón Bandaríkjadala fjárveitingu til að standa straum af stuðningi við flóttamenn frá Súdan fram í október. Því er spáð að 860 þúsund manns muni flýja til nágrannaríkja ef átök halda áfram.

Fénu skal varið til að aðstoða flóttamenn í Tsjad, Suður-Súdan, Egyptalandi, Eþiópíu og Mið-Afríkulýðveldinu.

Ástandið er afar alvarlegt og skortur á mat, vatni og eldsneyti. Auk þess er takmarkaður aðgangur að samgöngutækjum, fjarskiptum og rafmagni. Heilsugæslan hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum. Þá kemst fólk ekki á brott frá hættulegustu svæðnum og verð á nauðsynjum hefur rokið upp úr öllu valdi.

Súdan flóttamenn
Ljósmæður hjálpa bágstöddum konum í Súdan. Mynd: © UNFPA Sudan

Af þeim 860 þúsund sem búist er við að flýi, eru 580 þúsund Súdanir. Hins vegar eru 235 þúsund flóttamenn í Súdan, sem neyðast til að halda heim á leið til nágrannaríkja. 45 þúsund eru flóttamenn frá öðrum ríkjum. Búist er við að flestir flýi til Egyptalands og Suður-Súdan.

Nú þegar hafa 100 þúsund flúið land en 330 þúsund eru á vergangi innan landamæra Súdans.

Flóttamenn snúa aftur til Suður-Súdans

Frá því átökin brutust út 15.apríl hafa rúmlega þrjátíu og tvö þúsund manns haldið til Suður-Súdans og verið skráðir við komuna. Þessa stundina leita þrjú þúsund og fimm hundruð griða í Suður-Súdan daglega. Hins vegar er talið að raunveruleg tala sé mun hærri, því margir hafa hvorki getað né viljað skráð sig.

Rúmlega 90% flóttamannanna eru Suður-Súdanir sem snúa heim, auk Súdana sem leita hælis, og flóttamenn frá Erítreu, farandfólk frá Kenía og Sómalíu, auk fólks frá enn öðrum ríkjum.

„Meirihluti fólksins er oft og tíðum allslaust og felmtri slegið. Fólkið hefur brýna þörf fyrir mannúðaraðstoð og aðhlynningu, hvort tvegja læknis- og sálfræðilega, auk flutnings á áfangastað,“ segir Peter Van der Auweraert  yfirmaður mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna á staðnum.

Hugsanlega munu 180 þúsund Suður-Súdanir snúa heim á næstu 3 mánuðum og 10 þúsund manns frá öðrum ríkjum fara um Suður-Súdan á næstu mánuðu. Þá er búist við 60 þúsund flóttamönnum á næstu 6 mánuðum ef átök halda áfram.

1.1 milljón manna hefur leitað hælis í Súdan, þar af 800 þúsund Suður-Súdanir, rúmlega 100 þúsudn Erítreubúar og 60 þúsund Eþíópíumenn. Þar að auki eru margir Suður-Súdanir í Súdan sem hafa óljósa lagalega stöðu. Þá er fjöldinn allur af farandfólki og erlendum ríkisborgurum við nám eða vinnu í Súdan.

Ekki er heyglum hent fyrir Suður-Súdan að taka á móti þessu fólki. Talið er að 9.4 milljónir manna í landinu þurfi mannúðaraðstoð og/eða verndar á þessu ári eða 76% íbúanna.

Sjá einnig hér, hér, hér og hér