COVID-19: Michelin stjörnukokkur eldar fyrir heimilislausa

0
870
COVID-19 heimilislausra
Rasmus Munk segir að eldamennskan fyrir heimilislausa sé áframhald af lífspeki Alchemist. Mynd: Søren Gammelmark – með leyfi Alchemist.

Fyrir örfáum vikum eldaði danski matreiðslumaðurinn Rasmus Munk á tveggja stjörnu Michelin stað sínum fyrir auðuga gesti. Nú eldar hann pasta salat og tartalettur fyrir heimilslausa Kaupmannahafnarbúa. 

Mörgum veitingastöðum hefur verið lokað í Danmörku að undanförnu beint og óbeint vegna COVID-19, þar á meðal hinn þekkti veitingastaður Alchemist.

En þótt veitingastaðnum hafi verið lokað hefur eigandinn og stjörnkokkurinn ekki lagt árar í bát. Hann heldur áfram að sinna því sem hann hefur ástríðu fyrir: eldamennsku og matseld. Gestirnir eru af öðru sauðarhúsi og umhverfið er býsna ólíkt.

Heimilislaust og fátækt fólk í Danmörku hefur í sífellt færri hús að leita á tímum farsóttarinnar. Nærri öllu hefur verið lokað í útgöngubanninu. Lífsgæði hinna verst settu í samfélaginu hafa versnað umtalsvert. Hér vildi Rasmus Munk láta gott af sér leiða.

Kórónaveiru-faraldurinn hefur gefið Munk tækifæri til að blása nýju lífi í gamalt verkefni, sem hann fitjaði upp á fyrir nokkrum áruum.

JunkFood verkefnið

COVID-19, heimilislausir
Eldað er daglega fyrir 550 manns. Mynd með leyfi Alchemist

Nafnið er í raun öfugmæli: JunkFood því áhersla hans  er á að elda næringarríkan mat fyrir heimilislaust fólk.

„Á þessu augnabliki höfum við nógan tíma og fjögur tóm eldhús,“ segir Rasmus Munk í tölvupósti til vefsíðu UNRIC. „Það er erfitt að hafa að engu að hverfa þegar maður vaknar á morgnana, sérstaklega þegar maður er vanur 16 til 17 tíma vöktum.“

Og það er sannarlega mikil þörf. Eins og Munk benti á í ákalli til starfsbræðra sinna og systra sem hann birti á Instagram þá verða á sjötta hundrað manns að gera sér að góðu að vera á götunni í Vesterbro-hverfinu einu í Kaupmannahöfn. Vegna samgöngubanns hefur mörgum athvörfum verið lokað. Þau eru troðfull eða óstarfhæf vegna þess að sjálfboðaliðar halda sig heima vegna smithættu.

„Þetta er áskorun til allra veitingamanna í Kaupmannahöfn. Nú þegar fólk er hvatt til þess að halda sig heima, þurfa þeir sem eru heimilislausir á hjálp okkar að halda, sem aldrei fyrr,“ sagði Munk á Instagram.

„Við munum auðvitað grípað til allra nauðsynlegra ráðstafana til að forðast COVID-19 smit,“ bætti hann við.

COVID-19, heimilislausir
Alchemist þykir framsækinn veitingasatður og hefur 2 MIchelin stjörnur. Mynd: með leyfi Alchemist.

Munk útskýrði í tölvupósti til UNRIC að hann hefði byrjað á að hafa samband við Kaupmannahafnarborg og því næst látið til skarar skríða.

„Og nú eldum 550 máltíðir á dag og dreifum til 12 athvarfa um alla Kaupmannahöfn. Það er í góðu samræmi við lífspekinnar á bakvið Alchemist að láta gott af sér leiða, bæði hvað varðar matargerðarlistina og í daglegum samskiptum við gesti okkar.”

Sér á báti

Rasmus Munk hefur raunar löngum verið sér á báti í heimi matargerðarlistarinnar. Alchemist var sagður „Metnaðarfyllsti nýi veitingastaður heims“ í grein í RobbReport vegna þeirrar blöndu matar, listar, leikhúss og félagslegrar virkni sem þar er boðið upp á.

Á tveggja Michelin-stjörnu veitingahúsi sínu bauð Munk einu sinni upp á blóðlitaða kirsuberjasósu til að ögra gestum sínum og bauð þeim í kjölfarið upp á að gerast líffæragjafar. Munk segir eldamennsku fyrir heimilislausa framhald á lífspeki Alchemist.

„Verkefnið er í raun önnur hlið á sama peningnum en nú einbeitum við okkur að hverjum einstaklingi fyrir sig. Við höfum fengið frábærar viðtöku í starfsgreininni og höfum fengið aðstoð bæði við að afla hráefnis og koma máltíðunum til athvarfanna,” segir Munk.