Einhverfa er hluti af margbreytileika mannkyns

0
618
einhverfa

einhverfa

1. apríl 2016. Einhverfa og hvers kyns fötlun er einn af mörgum þáttum mannlegrar reynslu og hluti af margbreytileika mannkynsins.

2. apríl ár hvert er alþjóðlegur dagur einhverfu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Milljónir manna um allan heim teljast vera með einhverfu sem er æfilangt ástand. Í mörgum ríkjum er lítill skilningur á einhverfu og sums staðar eru einhverfir sniðgengnir. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri samtakanna segir í ávarpi í tilefni dagsins að í slíku felist mannréttindabrot, auk þess sem hæfileikar þessa fólks fari í súginn.

„Ég hef sjálfur kynnst frá fyrstu hendi krafti og ákveðni sem oft einkennir einhverfa,“ segir Ban. „Fyrr á þessu ári, átti ég því láni að fagna, að ræða við einhverfan ungan mann í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og hreifst af hugmyndaríkri nálgun hans á Sjálfbærri þróun og hvernig beri að ná alheimsmarkmiðunum.“

„Fólk með einhverfu er frá náttúrunnar hendi gætt mismunandi hæfileikum og hefur ólík áhugamál,“ heldur Ban áfram. „En allt einhverft fólk getur lagt sín lóð á vogarskálarnar til að gera heim okkar betri dvalarstað. Sameinuðu þjóðirnar eru stoltar af því að vera í fylkingarbrjósti í baráttunni fyrir því að auka vitund um einhverfu. Réttindi, raddir og velferð einhverfra og alls fólks sem glímir við fötlun, eru snar þáttur í 2030 áætlununum um sjálfbæra þróun og þá skuldbindingu að enginn skuli skilinn eftir.“

Málþing um einhverfu var haldið í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í dag og voru gestgjafar þess Mogens Lykketoft, forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og Cristina Galalch, forstöðumaður upplýsingadeildar Sameinuðu þjóðanna (DPI). Tengsl einhverfu og Áætlunar 2030 um Sjálfbæra þróun voru í brennidepli.

Alheimsmarkmið um Sjálfbæra þróun voru samþykkt af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september á síðasta ári, en mörg markmiðanna snerta einhverfu og stöðu fatlaðs fólks og má þar nefna markmið um hágæða menntun fyrir alla, mannsæmandi vinna og hagvöxtur, sjálfbærar borgir og samfélög, svo dæmi séu nefnd.

Mynd: Sameinuðu þjóðirnar hafa meðal annars beitt sér fyrir útgáfu frímerkja þar sem minnt er á málstað einhverfra.