Einn sími, ein mínúta, ein mynd

0
469
Mobile1

Mobile1

6.ágúst 2015.  Hleypt hefur verið af stokkunum  samkeppni um gerð einnar mínútu myndar um loftslagsbreytingar.

Ætlast er til að myndirnar séu teknar á síma. Það er Mobile Film Festival sem stendur fyrir samkeppninni í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Markmið keppninnar er, eins og segir í heiti hennar “Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum”.

Þátttakendur um allan heim eru hvattir til þess að gera myndir á móðurmáli sínu og skila inn á heimasíðu Mobile Film Festival, eigi síðar en 28.september. Þar má líka nálgast reglur keppninnar og leiðbeiningar um hvernig hægt er að hlaða myndum á síðuna. Hér má líka sjá skýringarmyndband.

mobilefilmfestival100 myndir verða valdar í úrvalsflokk en sigurvegarinn fær andvirði 30 þúsund evra í verðlaun (u.þ.b. 4.4 milljónir íslenskra króna)í formi styrks til að búa til kvikmynd með fulltingi fagfólks. Bankinn BNP Paribas veitir verðlaunin.

Einnig verða veitt verðlaun fyrir bestan leik í kven- og karlhlutverki, besta handrit, auk áhorfendaverðlauna. Verðlaunin verða veitt og myndir sýndar í París, 7.desember næstkomandi.

Þetta er í ellefta skipti sem kvikmyndahátiðin Mobile Film Festival er haldin, en hún er sú fyrsta sem einbeitir sér að kvikmyndum sem teknar eru upp á síma. Markmiðið er að uppgötva og styðja unga leikstjóra með því að gefa þeim tækifæri til að glíma við þá áskorun sem er 1 sími, 1 mínúta, 1 mynd.

Þema Mobile Film Festival að þessu sinni eru loftslagsbreytingar, í aðdraganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember (COP21).

750 myndir voru sendar inn til þátttöku í síðustu keppninni og 2.7 milljónir manna horfðu á þær á aðeins þremur vikum.

Nánari upplýsingar: http://www.mobilefilmfestival.com/