Danska stjórnin hunsar gagnrýni SÞ

0
500
UNHCR

UNHCR

11.ágúst 2015. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur gagnrýnt fyrirætlanir dönsku stjórnarinnar um að skera niður félagslegar bætur sem kemur harðast niður á flóttamönnum og útlendingum.

Nýtt frumvarp dönsku stjórnarinnar um að lækka bætur þeirra sem eru nýfluttir til Danmerkur, kann að brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Dana. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna segir í skriflegri umsögn að þetta sé brot á Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og að auki slæm skilaboð til annara Evrópuríkja. 

„Enda þótt formlega komi þetta líka niður á dönskum ríkisborgurum sem hafa búið utan Evrópusambandsins, mun þetta aðallega bitna á flóttamönnum og öðrum útlendingum. Flóttamannahjálpin lýsir áhyggjum sínum yfir því að sú krafa sem gerð er um að útlendingar hafi búið í Danmörku í 7 ár…geti mismunað og haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir flóttamenn,“ segir í umsögninni.

Frumvarpið felur í sér að einungis þeir sem búið hafa sjö af undanförnum átta árum í Danmörku, hafi rétt á fullum félagslegum bótum (kontant hjælp) og námsstyrkjum (SU). Aðrir hafa rétt á svokölluðum aðlögunarbótum en þær eru lægri.

Inger Beinov Stoejberg35 af 36 umsögnum um frumvarpið voru neikvæðar en Inger Støjberg, útlendinga- og aðlögunarráðherra vísar gagnrýni á bug og vitnar í dóm hæstarréttar Danmerkur.

„Ég legg ekki fram lagafrumvarp sem brýtur í bága við sáttmálana. Og það er ekki tilfellið því látið var reyna á svipuð lög sem voru áður í gildi, fyrir hæstarrétti og þau voru ekki talin andstæð sáttmálunum,“ sagði Inger Støjberg í viðtali við DR.

Gert er ráð fyrir að svokallaðar aðlögunarbætur nemi tæplega 6 þúsund dönskum krónum eða um 117 þúsund íslenskar krónur á mánuði. Til samanburðar eru atvinnuleysisbætur um 11 þúsund krónur á mánuði eða 216 þúsund íslenskrar krónur. Aðlögunarbæturnar eru því 45% lægri. Athygli vekur að bæturnar hækka um 1500 danskar krónur (30 þúsund íslenskar) á mánuði ef viðkomandi stenst dönskupróf.

Myndir: Mynd af UNHCR: UN Photo/Jean-Marc Ferre og Inger Støjberg: Folketinget/Inger Støjberg