Enn eykst flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi

0
415

Sýrland
25. janúar 2013. Allt að þrjú þúsund Sýrlendingar fara nú yfir landamærin til Jórdaníu á degi hverjum og 50 þúsund bíða þess að komast yfir, að sögn fulltrúa Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
26.500 Sýrlendingar hafa leitað skjóls í Jórdaníu frá áramótum, þar á meðal 10.500 síðustu fimm daga.    
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ávarpaði Heimsefnahagsmálaþingið í Davos í gær og lagði áherslu á að átökin í Sýrlandi bitnuðu í sívaxndi mæli á óbreyttum borgurum í landinu en meir en 60 þúsund manns hafa látist og hundruð þúsunda manna hafa flúið heimilis sína frá því uppreisn hófst gegn stjórn Bashar al-Assad snemma árs 2011.    
Átök hafa farið harðnandi undanfarna mánuði og fjórar milljónir manna þarfnast nú mannúðaraðstoðar. Ban bætti því við að heimurinn gæti ekki setið hjá aðgerðarlaus á meðan Sýrlandi væri tortímt. “Slíkt væri uppgjöf af okkar hálfu og svik við skylduna til að vernda. Heimurinn og fyrst og fremst Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verða að axla ábyrgð sína.”
Mannúðarstofnanir hafa þrátt fyrir erfiðleika vegna óöryggis og ósamvinnuþýð sýrlensk stjórnvöld, náð að brauðfæða 1.5 milljón manna og koma hjálpargögnum til 400 þúsunda. Ban segir að þetta sé ekki nóg og bætti við að mannúðarstofnanir þurfi einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala næstu sex mánuði til að halda áfram störfum.

Mynd: Sýrlensk kona í Za’atri flóttamannabúðunum í Jórdaníu. SÞ/Mark Garten.