Fjarri fyrirsögnunum: Fjórði hver Venesúelabúi hefur hrakist úr landi

0
191
Hundruð Venesúelabúa bíða við landamæri Ekvador og Kólombíu á flótta frá heimalandi sínu.
Hundruð Venesúelabúa bíða við landamæri Ekvador og Kólombíu á flótta frá heimalandi sínu. Mynd: UNICEF/Santiago Arcos

Fjarri fyrirsögnunum. Venesúela.

Um hvað snýst málið?

7.7 milljónir Venesúelabúa hafa yfirgefið heimaland sitt á innan við áratug vegna vaxandi ofbeldis, fátæktar og pólitískrar kreppu.  Efnahagsástandið og pólitísk kreppa í landinu eru helstu ástæður landflóttans

Skilti þar sem stendur Heimsvandamál : Fjarri fyrirsögnum

Áhrif á fólk og umhverfi

Þetta þýðir að rúmlega fjórði hver Venesúelabúa, sem telja um 29 milljónir, hefur lagst á flótta. Skortur er á lífsnauðsynjum og verðbólga tröllríður hagkerfinu. Að auki hefur stjórnarskrárkreppa verið í landinu, mannréttindabrot eru landlæg og stjórnarandstæðingar sæta ofsóknum. Ofbeldisalda hefur riðið yfir landið og mikið óöryggi einkennir þjóðlífið. Venesúela er nærri nærri níu sinnum stærri en Ísland (882,050 km2) og liggur á norðurodda Suður-Ameríku. Landið liggur að Kólombíu, Brasilíu og Gíneu, auk Karíbahafsins.

Börn á gangi í Caracas í Venesúela. Mynd: UNICEF/Velasquez
Börn á gangi í Caracas í Venesúela. Mynd: UNICEF/Velasquez

Meirihluti þeirra 7.7 milljóna, sem yfirgefið hafa landið – rúmlega 6.5 milljónir- hafa leitað á náði ríkja í Suður-Ameríku og í Karíbahafinu. Heilsugæsla og menntakerfi í mörgum þeirra ríkja eru að kikna undan álaginu. Ein milljón Venesúalabúa hefur sótt um hæli í heiminum. Rúmlega 230 þúsund þeirra hafa fengið stöðu sína, sem flóttamenn, viðurkennda.

Að sögn Samræmingarskrifstofu mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna (OCHA) þurfa 7 milljónir íbúa Venesúela á aðstoð að halda. Talið er að fjármögnun mannúðaraðstoðar muni kosta 650 milljónir Bandaríkjadala árið 2024.

Nirma, flóttakona frá Venesúela með 8 mánaða gamalt barn sitt í Willemstaad í Curacao.
Nirma, flóttakona frá Venesúela með 8 mánaða gamalt barn sitt í Willemstaad í Curacao. Mynd:. IOM Gema Cortes

Bakgrunnur ástandsins

 Stjórnarandstaðan í Venesúela viðurkenndi ekki endurkjör Nicolás Mauro forseta árið 2018. Í janúar 2019 studdi þjóðþingið forseta þess, Juan Guaidó, þegar hann lýsti sig „bráðabirgðaforseta“ á þeim forsendum að forsetakjörið hafi verið ógilt. Bandaríkin hafa sífellt hert viðskiptaþvinganir gegn landinu.

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna á vettvangi. Mynd: UNOCHA
Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna á vettvangi. Mynd: UNOCHA

Viðbrögð Sameinuðu þjóðanna

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt til „víðtækra og trúverðugra pólitískra viðræðna til að leysa hina langvarandi kreppu í landinu, með fullri virðingu fyrir réttarríkinu og mannréttindum.“

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna stofnaði Sjálfstæða sendisveit til að leita staðreynda um ástandið í Venesúela 2019. Í skýrslu sem hún skilaði í september 2023 komst sveitin að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Venesúel bældi niður andstöðu með aðferðum sem gætu falið í sér  „glæpi gegn mannkyninu.“

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna á vettvangi.
Barnahjálp SÞ (UNICEF) heldur uppi öflugu starfi. Mynd: UNOCHA

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna á vettvangi

Martin Griffiths mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna hefur tilkynnt að i 8 milljónum Bandaríkjadala úr Miðlægum hamfarasjóði Sameinuðu þjoðanna (CERF) verði varið  til að fjármagna aðstoð við Venesúelabúa.

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur aukið viðveru sína við landamæri í heimshlutanum og komið lífsnauðsynlegri aðstoð (þar á meðal vatni og hreinlætisvörum) til Venesúelabúa á vergangi.

Matvælaáætlunin  (WFP) kom  545 þúsund manns til hjálpar í Venesúela árið 2022. Frá 2021 hefur WFP útvegað skólabörnum máltíðir.

 UNICEF  hefur útvegað 900 börnum lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð. Barnahjálpin hefur eflt starf sitt vegna aukinn spurnar, hvort heldur sem er í heilsugæslu, matvælaaðstoð, menntun eða aðgangs að vatni, salernum og hreinlætisvörum.

Fátækt hefur farið vaxandi, þrátt fyrir olíuauð landsins
Fátækt hefur farið vaxandi, þrátt fyrir olíuauð landsins. Mynd: UNOCHA

Heimsmarkmið tengd ástandinu

Kreppan í Venesúela snertir flest Heimsmarkmiðanna og má nefna #1 Engin fátækt, #2 Ekekrt hungur og #16 Friður og réttlæti.

Hvað getur þú gert?

Láta má fé af hendi rakna til stofnana Sameinuðu þjóðanna á vettvangi, svo sem:

Flóttamannahjálpin UNHCR, hér.

Barnahjálpin UNICEF, hér.

Matvælaáætlunin WFP, hér.

Nánari upplýsingar:

Óháða rannsóknarnefnd Mannréttindaráðsins, here.

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðana, hér.

Bakgrunnsupplýsingar frá UNRIC um Venesúela, hér.