Fjöldi flóttamanna eykst í fyrsta skipti í fimm ár

0
457

19. júní 2007 Fjöldi flóttamanna í heiminum hefur aukist í fyrsta skipti í fimm ár, aðallega vegna ástandsins í Írak að því er Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skýrði frá í dag.

Í skýrslu UNHCR fyrir árið 2006 kemur fram að fjöldi flóttamanna sem stofnunin liðsinnir jókst um fjórtán prósent á síðasta ári eða í næstum því tíu milljónir og er þetta mesti fjöldi síðan 2002. Á sama tími jókst fjöldi fólks á meðal annara skjólstæðinga UNHCR verulega en aðallega vegna bættrar skráningar og betri tölfræði. 
"Fjöldi fólks sem flosnar upp vegna ofsókna, skorts á umburðarlyndis og ofbeldis um heim allan fjölgar. Við verðum að glíma við nýjar áskoranir og kröfur í breyttum heimi án þess að gleyma skyldu okkar að verja réttindi flóttamanna og annara skjólstæðinga okkar,” sagði Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna António Guterres þegar hann fylgdi skýrslunni úr hlaði.
Samkvæmt skýrslu UNHCR á fjölgunin að miklu leyti rætur að rekja til ástandsins í Írak. Í árslok 2006 höfðu ein og hálf milljón Íraka leitað hælis í öðrum löndum, aðallega Sýrlandi og Jórdaníu. 
Stærsti hópurinn sem var undir verndarvæng UNHCR 2006 voru Afganir (2.1 milljón) síðan Írakar (1.5 milljón), Súdanir (686 þúsund), Sómalir (460 þúsund) og flóttamenn frá Kongó og Búrundí (um 400 þúsund frá hvoru landi).
Í tölum UNHCR er ekki gert ráð fyrir 4.3 milljónum Palestínumanna í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi og herteknum svæðum Palestínumanna en þau falla undir sérstakt umboð annarar stofnunar, Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar (UNRWA). Ef þeim tölum er bætt við er fjöldi flóttamanna undir verndarvæng beggja stofnana meir en 14 milljónir.  
Sjá nánar: http://www.unhcr.org/news/NEWS/4676a90e4.html