FRAMKVÆMDASTJÓRI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA — ÁVARP Á ALÞJÓÐLEGAN BARÁTTUDAG FYRIR UPPRÆTINGU KYNÞÁTTAMISRÉTTIS, 21. mars 2006

0
539

21. mars 1960 skaut lögregla kynþáttaaðskilnaðarstjórnarinnar í Suður-Afríku á friðsama mótmælendur í Sharpeville sem mótmæltu lögum um kynþáttaaðskilnað. Tugir mótmælenda létust og enn fleiri særðust. Í dag minnumst við afmælis blóðbaðsins í Sharpeville ekki aðeins til að heiðra minningu þeirra sem létust, heldur einnig til að draga athyglina að þjáningum víðs vegar í heiminum af völdum kynþáttamisréttis.  
 
Málefni dagsins að þessu sinni: "Að berjast gegn daglegu misrétti", er áskorun um að takast á við hversdagslegt misrétti í samfélögum okkar. Við erum öll meðvituð um að sum af mestu voðaverkum sem framin hafa verið, áttu rætur að rekja til kynþáttar. Oft er hins vegar litið framhjá miklum afleiðingum hversdagasleg kynþáttamisréttis. Hversdaglegt ofstæki hefur oft verið grunnurinn að verstu glæpum mannkynsins.
 
Mismunun eftir hörundslit eða kynþætti er algeng í samfélögum okkar og er oft ekki svarað, hvort heldur sem er uppnefni í skólum, mannaráðningar eða brottrekstrar á vinnustöðum, hlutdrægar frásagnir í fjölmiðlum eða lögregluskýrslum eða mismunun í veitingu opinberrar þjónustu. Því verður ekki á móti mælt að slíkt hversdagslegt kynþáttahatur viðgengst. Það er óforsvaranlegt að því sé ósvarað.  
 
Við eigum ekki að umbera hægfæra rotnun misréttisins. Við getum heldur ekki látið okkur nægja að harma slæmar hliðar mannlegrar náttúru. Enginn okkar er fæddur til að hata. Þröngsýni er kennd og það er rétt eins hægt að kenna umburðarlyndi. Lagaleg úrræði eru grundvallaratriði í þessari baráttu. En menntun er lykilatriði. Þróa má skilning og efla umburðarlyndi með menntun. Menntun ætti að byrja á heimilunum, þar sem rætur kynþáttahaturs oft liggja, halda áfram í skólanum og verða sjálfsagður hluti almennrar orðræðu. Borgarararnir eru hvort tveggja í senn kennarar og nemendur í þessari baráttu.    
 
Sameinuðu þjóðirnar leika stórt hlutverk með herferðum sínum fyrir vitundarvakningu og með alþjóðlegri lagasetningu og eftirliti með réttindum. En við verðum öll að leggja baráttunni lið. Á Alþjóða baráttudeginum fyrir upprætingu kynþáttamisréttis, skulum við ítreka að mestur árangur næst í baráttunni þegar almennir borgarar andmæla "venjulegu" þröngsýni. Það eru venjulegir borgarar sem verða að hafna því að skortur á umburðarlyndi ráði ferðinni í daglegu lífi. Það eru þeir sem verða að tryggja að það sé ekkert "hversdagslegt" við misrétti. Og það eru þeir sem munu hafa mestan hag af því að samfélögin byggja á réttindum og virðingu fyrir öllum.