FRAMKVÆMDASTJÓRI SÞ: ÁVARP Á ALÞJÓÐLEGA VATNSDAGINN, 22. mars 2006

0
510
Að þessu sinni er þema Alþjóðlega vatnsdagsins "Vatn og menning". Vatn er ekki einungis undirstaða lífsins heldur kemur það einnig við sögu í menningunni, er listamönnum innblástur, efniviður vísindarannsókna og hluti af helgisiðum i mörgum trúarbrögðum.   
 
En þrátt fyrir mikilvægi og þá helgi sem stundum hvílir á vatni, er vatni sóað og því spillt um allan heim, jafnt í sveit sem borg. Átján prósent íbúa heimsins hafa ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og 40% njóta ekki lágmarks hreinlætis. Á hverjum degi deyja 6 þúsund manns, flest börn, af orsökum sem rekja má til vatns.
 
Þetta er ástæða þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, hvatti til aukinna aðgerða til að tryggja að alþjóðlegum markmiðum yrði náð í vatni og hreinlæti, í ályktun þar sem áratugurinn 2005 til 2015 var helgaður alþjóðlegum aðgerðum undir heitinu: "Vatn fyrir líf". 
 
Allsherjarþingið lagði einnig áherslu á að ná til kvenna í aðgerðum sem snertu vatn. Í mörgum menningarheimum, þar á meðal hjá frumbyggjum, sjá konur um vatnið. Oft er það hlutskipti kvenna að leggja á sig langar göngur til að sækja og bera vatn. Nauðsynlegt er að þær komi að ákvörðunum um hvernig vatn er notað til þess að ríki þeirra færi sér í nyt þekkingu þeirra, hæfni og vinnuframlag. 
 
Vatnsdaginn ber að þessu sinn upp á sama tíma og Fjórða alþjóða vatnsþingið er haldið í Mexíkóborg. Ég hvet alla þátttakendur til að taka höndum saman og senda skýr skilaboð til heimsins um hve brýn þessi áskorun er.
 
Vatnsdagurinn er einnig útgáfudagur annarar útgáfu skýrslunnar the World Water Development Report (http://www.unesco.org/water/wwap/wwdr2/table_contents.shtml), sem Áætlun Sameinuðu þjóða kerfisins um mat á vatni stendur fyrir. (World Water Assessment Programme).  Í þessari skýrslu er sýnt fram á hvað heimurinn þarf að gera til að svara þeim áskorunum sem felast í nýtingu ferskvatns og hvað Sameinuðu þjóða kerfið getur lagt af mörkum.
 
Við skulum á alþjóðlega vatnsdaginn viðurkenna menningarleg-, umhverfislegt og efnahagslegt gildi hreins vatns og efla starf fokkar í að vernda ár, vötn og vatnsból.  Við skulum grípa til aðgerða á vettvangi alþjóðsamtaka, ríkisstjórna og sveitastjórna til að ná markmiðum okkar.