Framleiðsla jarðefnaeldsneytis gæti tvöfaldast fyrir 2030

0
21
Orka unnin úr jarðefnaeldsneyti
Orka unnin úr jarðefnaeldsneyti Mynd: © Unsplash/Johannes Plenio

COP 28. Loftslagsbreytingar. Þrátt fyrir fyrirheit um niðurskurð framleiðslu kunna stefnumið stjórnvalda um allan heim að leiða til allt að tvöföldunar framleiðslu jarðefnaeldsneytis fyrir 2030. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNEP, Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna.

Skýrsla UNEP.
Skýrsla UNEP.

„Skýrslan um bilið á milli framleiðslu og markmiða (2023 Production Gap report) er sláandi dæmi um gríðarlegt kæruleysi í loftslagsmálum,” sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar skýrslan var kynnt.

Þessi aukning gerist þrátt fyrir að 151 ríkisstjórn í heiminum hafi heitið því að stefna að nettó-núll losun lofttegunda, sem valda gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum.

Síðustu spár, benda til að eftirspurn eftir kolum, olíu og gasi i heiminum muni ná hámarki á þessum áratugi.

Þegar áætlanir ríkisstjórna um allan heim eru lagðar saman má gera ráð fyrir að kolaframleiðsla í heiminum aukist fram til 2030, en olíu- og gasframleiðsla haldi áfram að aukast til að minnsta kosti 2050.

Uggvænlegar tölur

Í skýrslunni sem Umhverfisstofnunin í Stokkhólmi, UNEP og fleiri unnu að eru ríki hvött til að hætta samám saman kolaframleiðslu og notkun fyrir 2040.

Einnig er hvatt til að minnsta kosti 75% minnkunar olíu- og gasframleiðslu fyrir 2050 miðað við 2020.

Bændur í Eþíópíu beisla sólarorku.
Bændur í Eþíópíu beisla sólarorku. Mynd: © IWMI/Petra Schmitter

Ríkisstjórnir heims komust að samkomulagi á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow (COP26) fyrir tveimur árum um að hraða því í áföngum að draga úr bæði kola- og olíu-og gasnotkun. Þvert á móti hefur notkunin slegið öll met.

Næsta Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP28) hefst í Dubai í lok þessa mánaðar, nóvember 2023.  Oddviti Sameinuðu þjóðanna telur að veraldarleiðtogum beri að senda „skýr skilaboð um að öld jarðefnaeldsneytis sé að ljúka og slíkt sé óumflýjanlegt.”

Merki COP28 í Dubai.

Markmið að fuðra upp

Til þess að svo megi verða er þörf á sannfærandi skuldbindingum um að auka notkun endurnýjanlegrar orku, auka orkusparnað og hætta notkun jarðefnaeldsneytis í áföngum til að tryggja jöfn og réttlæt umskipti.

„Jarðefnaeldsneytið veldur þvi að markmið í loftslagsmálum eru að fuðra upp. Það er tími kominn til breytinga,“ sagði Guterres.