Friðargæsla: Tár, bros, takkaskór og jákvæð mismunun

0
190
Fyrstu fótboltum dreift. Mynd: UNMISS

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára. Sænska lögreglukonan Sandra Bylund, 42, fékk afdrifaríkt símtal í febrúar 2022. Hún hafði vitað að hún hefði verið samþykkt á viðbragðslista til þjónustu erlendis 2020. Nú fékk hún að vita að hún ætti að hleypa heimdraganum innan aðeins eins mánaðar. Í mars lenti hún í Juba í Suður-Súdan og þaðan hélt hún til starfa í Wau í Vestur-Bahr el Ghazal-fylki.

Á vit þyrlunnar. Mynd: UNMISS

Sandra hafði undanfarin tíu ár unnið í lögreglunni, síðast sem hunda-umsjónarkona í lögregluumdæmi Skaraborg. Nú var ferðinni heitið til starfa á skrifstofu, sem oft og tíðum er staðsett í skugga trés hvar sem það er að finna, í Suður-Súdan. Sandra hafði slegist í hóp 90 þúsund friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru að störfum í 12 mismunandi verkefnum Sameinuðu þjóðanna víðs vegar um heim, hvar sem þeirra er helst þörf. Starf Söndru var hjá UNMISS – sveit SÞ í Suður-Súdan.

Þráði áskorun

Friðargæsluliðar með heimamönnum. Mynd: UNMISS

„Ég þráði áskorun og persónulegan þroska og slíkt gerist ekki nema utan við þægindarammann,“ segir Sandra Bylund. „Suður-Súdan er eitt af fátækustu og hættulegustu ríkjum heims. Ef ég ætlaði utan á annað borð fannst mér rétt að vera þar sem mín væri raunverulega þörf. Ég sagði já samstundis,“ segir Sandra.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti 8.júlí 2011 að setja á stofn Sveit Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan (UNMISS).  Átök hafa staðið yfir í nærri áratug. Þrátt fyrir friðarviðleitni, blossar ofbeldi upp með reglulegu millibili. Matvælaástand er ótryggt og skæð flóð hafa herjað á landsmenn.

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Nýliðar í suður-súdönsku lögreglunni. UN Photo/Paul Banks

Suður-Súdan er yngsta ríki heims; lýsti yfir sjálfstæði frá Súdan 9.júlí 2011. Allsherjarþingið samþykkti aðild landsins að samtökunum 14.júlí. Suður-Súdan er stundum kallað yngsta þjóð heims – í öðrum skilningi, því 70% íbúanna eru yngri en þrítugir.

Sandra og félagar hennar starfa í lögreglunni á vettvangi. Þau fylgjast með, skrásetja og skrifa skýrslur um öryggisástandið, sem Sandra segir að sé „ófyrirsjáanlegt.“ Á starfsvettvangi hennar hefst útgöngubann klukkan sjö að kvöldi. Aðalverkefnið er að styðja og mennt lögreglulið heimamanna, og auka hæfni þess. En einnig felst í starfinu að vera til staðar fyrir íbúana, fylgjast með daglegum áskorunum þeirra og safna upplýsingum um öryggismál.

Skrifstofa í skugga trés

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75
Þjálfun. Mynd: UNMISS

„Það er við ýmsan vanda að glíma hjá lögreglunni á staðnum,“ útskýrir Sandra. „Við setjum stundum upp skrifstofu í skugga af tré, í bókstaflegri merkingu. Fangelsið getur verið keðja föst við jörð. En vandinn er líka sá að stór hluti lögreglumanna er ólæs. En þótt starf mitt sé ólíkt störfum lögreglunnar í Svíþjóð, er grunnurinn sá sami. Við þurfum á báðum stöðum að rækta góð samskipti við íbúana til þess að geta sinnt skyldum okkar. Við köllum það samfélagslega löggæslu. Við þurfum að byggja upp öflug tengsl við heimamenn til þess að geta haft frumkvæði. Við þurfum að þróa lausnir við undirliggjandi aðstæðum, sem valda vandamálum á öryggissviðinu.“

Söndru hefur þótt persónulega erfitt að geta lítið aðhafst til að breyta og bæta líf landsmanna. Mannúðarvandinn er hvarvetna nálægur á mismunandi hátt í Suður-Súdan. Birtingarmyndirnar eru munaðarlaus börn, sem engrar félagslegrar aðstoðar njóta. Og ekki síður fátækin og hungrið og afleiðingar þess á fólkið. Mörg börn ganga ekki í skóla, heldur eyða deginum í að ná í vatn, betla á götum úti eða gera hvaðeina sem getur haldið lífinu í fjölskyldum þeirra.

Hungur og fátækt

„Ég kem úr allsnægtum,“ útskýrir Sandra. „Við snúum krana og þá rennur vatn. Á þessum slóðum býr fólk sem ekkert á.  Það er eins og að ljósið hafi aldrei náð að skína á Suður-Súdani. Sjaldna er fjallað um þá í fjölmiðlum, og hér er skelfilegt hungur og fátækt.“

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Ungir piltar í Juba í Suður-Súdan. Mynd: UN Photo/Gregório Cunha

1,446 lögreglumenn á vegum Sameinuðu þjóðanna (UNPOL) starfa í tíu héruðum viðsvegar um Suður-Súdan. Af þeim tilheyra 847 sérstökum lögreglusveitum, 561 starfa sem einstakir lögreglumenn,  og 38 eru í fangavörslu. Árið 2011 var svo komið að vopnaðir hópar herjuðu í níu af tíu fylkjum landsins, og tugir þúsunda höfðu lagt á flótta. Fyrstu kosningar eftir sjálfstæði eru á dagskrá í desember á næsta ári.

Ársdvöl Söndru er senn á enda og hún á flugmiða heim á næstunni. En það er sérstök ástæða fyrir því að dvöl hennar var framlengd um mánuð. Hún vildi láta gott af sér leiða í mannúðarm´laum utan vinnutíma. Kona að nafni Asma Abubak, gaukaði að henni sérstakri bón.

Fótboltaverkefnið

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75
Horft á fótboltaleik í Naivasha flóttamannabúðunum. Mynd: UNMISS

„Þessi kona sagði mér frá börnum, sem voru döpur og höfðu lítið við að vera. Þau höfðu leikið fótbolta en síðustu 7 mánuði hafði það lagst af vegna skorts á búnaði. Þannig að ég fór á markaðinn og keypti það sem til þurfti fyrir liðið.“

Fyrst voru keyptir boltar fyrir 34 manna hóp en fyrr en varði höfðu hundruð leikmanna bæst í hópinn. Með því að virkja krakkanna er þeim haldið frá vandamálum og glæpum. Sandra sagði vinum og starfssystkinum heima í Svíþjóð frá málinu og þau lögðu til fjármagn. Alls söfnuðust sex þúsund Bandaríkjadalir sem nægði til að kaupa allt sem til þarf að 650 manns á öllum aldri leiki knattspyrnu.

Með fyrirliða kvennaliðsins. Mynd: UNMISS

„Að hjálpa þessum ungu knattspyrnumönnum, var afar praktísk hjálp“ segir Sandra sem segist enga reynslu hafa af fótbolta.

Nýja dagsetningin á flugmiðanum er 15.apríl. Hún hefur beðið Sameinuðu þjóðirnar að taka yfir fótboltaverkefnið og tryggja framtíð þess. Hún hefur vandað til verka við að taka saman „bestu skýrslu nokkru sinni” um málið. Hún hefur líka valið manneskju „með nægan kraft og hjartað á réttum stað“ til að taka við stjórninni. Alúð hennar við að útvega fótbolta, búninga og annan búnað fyrir unga fólkið í Suður-Súdan er þegar farin að skila árangri í samfélaginu.

Fótboltaskór og jákvæð mismunun

Friðargæsluliðar: Mynd: UNMISS

„Þetta verkefni hefur þegar skilað áþreifanlegum árangri. Oddvitar samfélagsins í Naivasha búðunum fyrir flóttamenn innanlands horfa upp á minni and-félagslega hegðun. Færri ungar stúlkur verða ófrískar og verkefnið er talið valkostur við ofbeldi. Ég vil skipta sköpum. Í ríkjum þar sem er engin heilbrigðisþjónusta, reyndar engin þjónusta sem virkar, er engin framþróun heldur frekar hið gagnstæða. Íbúarnir líða fyrir það.“

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Alþjóðlegum degi friðargæsluliða fagnað. Mynd: UNMISS

Sandra gat keypt skyrtur og búninga fyrir alla, en fjárhagurinn leyfði ekki að kaupa skó, þegar fjöldi leikmanna hélt áfram að vaxa. Til þess að hvetja stúlkurnar áfram, beitti hún „jákvæðri mismunun.” Hún sagðist munu ekki kaupa fleiri skó, nema á stelpurnar. Hún óttaðist að ala á öfund, en drengirnir skildu þetta. Hún er í nánum tengslum við þjálfarana og heldur því áfram.

Sandra Bylund er greinilega fegin því að fótboltaverkefnið heldur áfram. Nú þegar heimferðin er í vændum segist hún vera reynslunni ríkari um sjálfa sig.  Þolgæði og persónuþroski hafa eflst við dvölina í Suður-Súdan. Þótt dvölinni sé enn ekki lokið segist hún viss um að einn góðan veðurdag muni hún þurfa að feta sig út fyrir þægindarammann og halda á vit nýrra verkefna.

„Þessi reynsla hefur opnað augu mín á svo margan hátt að ég mun aldrei getað lokað þeim aftur.”

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna er 75 ára í ár. 

Alþjóðlegur dagur íþrótta í þágu þróunar er 6.april.