Gore og Bündchen styðja orku fyrir alla

0
522

modelgisele

26. febrúar 2013. Ofurfyrirsætan Gisele Bündchen, góðgerðasendiherra Sameinuðu þjóðanna, hefur tekið höndum saman við Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna í þagu umhverfisátaks Sameinuðu þjóðanna. Þau koma fram í myndbandi til stuðnings baráttunni fyrir aðgangi að nútíma orkugjöfum fyrir alla jarðrbúa fyrir árið 2030. Sjá myndbandið hér

Bündchen og Gore leggja sérstöku átaki Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna lið í auglýsingunni sem sýnd er víða um heim þessa viku. Ásamt þeim kemur fram í myndbandinu stjórnandi átaksins  Kandeh K. Yumkella, forstjóri UNIDO, iðnþróunarstofnunar SÞ.

 “Orka getur umbreytt efnahagskerfinu, lífinu, heilu meginlöndunum, jörðinni okkar. Okkur býðst einstakt tækifæri til að útrýma orkufátækt,” er boðskapur Gore, Yumkella og Bündchen, en hún er sendiherra Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP.
“Færum öllum orku, til að beilsa kraftinn, í þágu kvennanna, framfara, hagvaxtar, framtíðarinnar  – orku fyrir alla.”
 Þrír milljarðar manna um allan heim verða að treysta á hefðbundinn lífmassa til að elda og kynda og einn og hálfur milljarður hefur engan aðgang að rafmagni, að sögn UNEP.
Átakið Sjálfbær orka fyrir alla miðar að því að ná þremur innbyrðis tengdum markmiðum fyrir 2030 en þau eru : almennur aðgangur að nútíma orkuþjónustu; tvöföldun skilvirkni í orkunýtingu og  tvöföldun hlutfalls endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun heimsins.
Í síðustu viku birti UNEP nýja rannsókn sem sýnir fram á að fjárfesting í því að láta sólarorku leysa af hólmi hefðbundna lýsingu á borð við lampa, kerti, vasaljós og þess háttar, getur borgað sig upp á innan við ári.

Það er eitt af átta Þúsaldarmarkmiðunum um þróun (MDG) til höfuðs fátækt í heiminum að tryggja sjálfbærni umhverfisins.

Mynd: Gore, Yumkella og Bündchen. UNIDO