Grænlendingum ber að vera stoltir af því að vera frumbyggjar

0
77
Grænlensk skírn. Mynd: Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Grænlensk skírn. Mynd: Mads Schmidt Rasmussen / norden.org

Grænland. Inúítar. Alþjóðlegur dagur frumbyggja.Aki-Matilda Høegh-Dam var kosin á danska þingið, sem fulltrúi Grænlands árið 2019, þegar hún var aðeins 22 ára gömul.  Hún er stolt af uppruna sínum sem Inúíta.

Inúítar, sem eru eina frumbyggjaþjóðum heims eru 90% af 60 þúsund íbúa Grænlands.  9.ágúst er Alþjóðlegur dagur frumbyggja.

Grænland, nýtur sjálfsstjórnar innan danska konungdæmisins, en kýs einnig tvo þingmenn á danska þingið, auk síns eigin þings og heimastjórnar.

Þema Alþjóðlegs dags frumbyggja heimsins, 9.ágúst er Frumbyggja-æska sem aflvaki breytinga í þágu sjálfsákvörðunar.   

 Grænlenskir Inúítar hafa óneitanlega tryggt sér sjálfsákvörðunarrétt í tengslum sínum við Dani, sem stjórnað hafa eynni í meir en þrjár aldir. Í upphafi áttunda áratugarins varð þjóðernishreyfing Grænlendinga til fyrir alvöru og krafan um sjálfstæði. Á þeim tíma var ungt fólk í fararbroddi.

Aki-Matilda Høegh-Dam var aðeins 22 er hún var kosing á þing, en hún er nú 26. Mynd: Siumut Folketingimi
Aki-Matilda Høegh-Dam var aðeins 22 er hún var kosing á þing, en hún er nú 26. Mynd: Siumut Folketingimi

Unga fólkið í dag meðvitað um afnýlendun

  Aki-Matilda Høegh-Dam benti á í viðtali við vefsíðu UNRIC að unga fólkið í dag, hennar kynslóð, væri meðvitaðra en hinir eldri um það ferli sem tengdist baráttu gegn nýlendustefnu og baráttu fyrir réttindum frumbyggja. Hins vegar hefðu ungir jafnt sem gamlir lagt sín lóð á vogarskálarnar.

„Sem dæmi má nefna var það ungt fólk á áttunda áratugum, sem breytti félagslegum viðmiðum og barðist fyrir sjálfstjórn og heimastjórn. Þau sem voru ung þá eru nú á sjötugsaldri. Hins vegar heldur unga kynslóðin í dag áfram að takast á við þessi málefni út frá nútímalegu sjónarhorni. Barist er fyrir jafnari stöðu aðila í sambandinu og unnið að því að draga úr áhrifum nýlendustefnunnar á frumbyggja Grænlands.”

 Múte Bourup Egede og Mette Frederiksen. Mynd: Magnus
Múte Bourup Egede og Mette Frederiksen. Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org

Þótt Grænland njóti víðtækrar heimastjórnar er eyjan enn háð fjárhagslegri aðstoð Dana. Høegh-Dam  vill taka skrefið til fulls og lýsa yfir sjálfstæði.

„Ég tel að við verðum að vera sjálfstætt ríki til að tryggja alvöru framþróun. Þar með væri greitt fyrir því að Grænland gæti haft bein viðskipti við heiminn. Með því væri hægt að draga úr því hve háð við erum Danmörku og greitt fyrir að við höfum meiri stjórn á efnagslegum innviðum og ákvarðanatöku.”

Að tala grænlensku á danska þinginu

 Nýlega vakti hún athygli fyrir að flytja ræðu á grænlensku í ræðustól danska þingsins. Hún segir að ræðan hefði verið þýðingarmikið skref í þá átt að beina kastljósinu að kerfisbundnum ójöfnuði og erfðileikum sem Grænlendingar stæðu frammi fyrir.

Ræða hennar á grænlensku í Folketinget var umdeild.
Ræða hennar á grænlensku í Folketinget var umdeild. Mynd: Siumut Folketingimi

„Markmiðið með þeirri ákvörðun minni að tala grænlensku á þingi var að fletta ofan af þessari mismunun, reyna að auka skilning á því að takast beri á við þetta, og vekja athygli á þeim raunveruleika sem umbjóðendur mínir búa við og áskorunum sem þeir mæta í dönsku samhengi.”

Grænlenskir Inúítar taka þátt í samstarfi frumbyggjaþjóða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (UN Permanent Forum for the World’s Indigenous Peoples). Høegh-Dam telur að sjálfsmynd Inúíta sem frumbyggjaþjóðar á Grænlandi, sé þýðingarmikill hluti styrks þeirra og menningarlegrar arfleifðar.

Aki-Matilda á fundi í Lúxemborg
Aki-Matilda á fundi í Lúxemborg. Mynd: Siumut Folketingimi

„Ég legg áherslu á að Grænlendingum beri að vera stoltir af því að vera frumbyggjar. Slíkt nær yfir hefðir, tungumál, húðflúr og mat. Það þarf að brjóta á bak aftur sögulega smánun og taka þessari sjálfsmynd opnum örmum. Þetta valdeflir ekki aðeins Grænlendinga heldur greiðir fyrir því að innbyrða þessar hefðir í nútímalegt samfélag. Við þurfum að skapa sérstaka menningarlega samlegð, sem sækir styrk bæði í sögulega þekkingu og framfarir samtímans.“

Áskorun loftslagsbreytinga

 Loftslagsbreytingar eru áskorun fyrir Grænlendinga eins og svo marga aðra frumbyggja. 90% Grænlands, sem er 2.2 milljónir ferkílómetra – stærsta eyja heims – er þakið ís.

 „Loftslagsbreytingar hafa umtalsverð og margslungin áhrif á líf Grænlendinga. Þær hafa áhrif á hefðbundinn veiðiskap og bráðnun íss og flóðbylgjur ógna byggðum.“

Áhrif loftslagsbreytinga á Grænlandi eru margslungnar. Mynd: Silje Bergum Kinsten/norden.org
Áhrif loftslagsbreytinga á Grænlandi eru margslungnar. Mynd: Silje Bergum Kinsten/norden.org

Ef ísinn hopar, opnast hins vegar efnahagsleg tækifæri, sem gætu dregið úr nauðsyn fjárhagsaðstoðar frá Danmörku og greitt götu sjálfstæðis.

„Þótt loftslagsbreytingar geti skapað tækifæri á borð við námagröft þegar ísinn bráðnar, hallast ég að ábyrgðarfullri ákvörðunartöku. Ég hvet til ítarlegs umhverfismats og skýrrar lagasetningar. Það þurfa að vera skýr mörk til að tryggja öryggi umhverfisins og íbúanna, á sama tíma og hugsanlegur efnahagslegur ávinningur er tekinn með í reikninginn.“

Nýverið bauð hin 26 ára gamla  Aki-Matilda Høegh-Dam sig fram til formennsku í Siumut, grænlenska jafnaðarmannaflokknum. Hún laut í lægra haldi fyrir sitjandi formanni en náði öðru sæti og skaut fyrrverandi forsætisráðherra ref fyrir rass. Engum kæmi á óvart þótt Aki-Matilda Høegh-Dam eigi eftir að láta mikið til sín taka í framtíðinni.