Grænlenska lykkjumálið: „Við vorum frosnar í eigin líkama“

0
26
Naja er 61 árs gömul, sálfræðingur og eignaðist son 35 ára gömul.
Naja er 61 árs gömul, sálfræðingur og eignaðist son 35 ára gömul.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Grænland. Naja Lyberth er ef til vill orðin þekktasta kona Grænlands fyrir að afhjúpa svokallað „lykkjumál”, sem vakið hefur heimsathygli. Málið snýst um að lykkju var komið fyrir í legi þúsunda grænlenskra stúlkna. Lykkja er getnaðarvörn og er lítið stykki úr plasti eða jafnvel kopar. Danskir læknar komu lykkjunni fyrir í líkama grænlensku stúlknanna án samþykkis og stundum vitundar þeirra sjálfra eða forráðamanna þeirra.

Dönsk stjórnvöld vildu með þessu koma í veg fyrir fjölgun grænlenskra Inúíta. Ýmsir stjórnmálamenn á Grænlandi hafa gengið svo langt að kalla þetta þjóðarmorð. Ísetningin var oft og tíðum sársaukafull. Naja Lyberth er nú 61 árs gömul en var 14 ára þegar lykkjunni var komið fyrir við árlega læknisskoðun. Lyberth segir að þetta hafi jafngilt því að svipta hana meydómnum með valdi.

„Legið er helgasta innra líffæri okkar og ætti að vera ósnertanlegt“ útskýrði hún í viðtali við vefsíðu UNRICs. „Það eru mannréttindi okkar að hafa rétt til að eignast börn og stofna fjölskyldu. Engin ríkisstjórn ætti að hafa vald yfir leginu.“

Nuuk. Mynd: Thomas Leth-Olsen/ Creative Commons Attribution-Share Alike 2.0
Nuuk. Mynd: Thomas Leth-Olsen/ Creative Commons Attribution-Share Alike 2.0

Hefðbundið veiðimannasamfélag

Naja Lyberth segir að Grænland á sjöunda áratugnum hafi verið hefðbundið veiðimannasamfélag með skýrri verkaskiptingu á milli kynjanna. Fjölskyldur voru stórar og margar kynslóðir bjuggu saman í miklu nábýli.  Naja var litla systirin í tíu systkinahópi og hennar fjölskylda skar sig ekki úr á þeim tíma. Hún var alin upp til að vera „hlýðin” og hjálpfús stúlka í samfélagi þar sem allir hjápuðust að.

„Maður átti að vera meðfærilegur og það var bannað að streitast á móti og svara fyrir sig. Ég átti ekki roð í danskan lækni, sem var áhrifamaður,“ segir Lyberth. „Allt mitt uppeldi gerði mér það ókleift að standa gegn lækninum eða flýja af hólmi.“

Inúitakonur.Mynd: Ansgar Walk/ Creative Commons Attribution 2.5
Inúitakonur.Mynd: Ansgar Walk/ Creative Commons Attribution 2.5

Hún þagði þunnu hljóði áratugum saman. Loks sagði hún frá málinu á samfélagsmiðlum fyrir um það bil sex árum. Hún var fyrst grænlenskra kvenna til að segja frá því sem gerðist. Dagblað tók söguna svo upp árið 2019.

„Fyrir stúlku og unga kona var það ómögulegt í mínum menningarheimi að berjast fyrir mínum innri mörkum, en skyndilega öðlaðist ég afl til að virkja bæði mína kvenlegu hlið og þróa með mér kjark til að tala máli mínu hátt og snjallt um það sem ég hafði mátt þola,“ sagði Lyberth í viðtali við vefsíðu UNRICs.

Sumir taka svo djúpt í árinni að kalla lykkjumálið tilraun til þjóðarmorðs.
Sumir taka svo djúpt í árinni að kalla lykkjumálið tilraun til þjóðarmorðs.

Rannsókn lýkur næsta ár

Naja Lyberth starfar nú sem sálfræðingur og baráttukona fyrir kvenréttindum. Í desember 2022 var hún valin í hóp 100 áhrifakvenna í heiminum af BBC. Eftir að hlaðvarpið “Spiralkampagnen” (lykkju-baráttan) á Danmarks Radio vakti athygli varð málið pólitískt.    Þar kom fram að frá 1966 og fram á áttunda áratuginn var lykkjunni þvingað upp á 4500 stúlkur eða um helming kvenna á barneignaaldri á Grænlandi.

Naja Lyberth og grænlensku baráttukonurnar í lykkjumálinu fengu dönsku mannréttindaverðlaunin 2023.
Naja Lyberth og grænlensku baráttukonurnar í lykkjumálinu fengu dönsku mannréttindaverðlaunin 2023.

Á síðasta ári skipuðu danska ríkið og grænlensk yfirvöld óháða rannsóknarnefnd, sem á að skila niðurstöðum í maí 2025. Í október á síðasta ári var Naja ein 67 kvenna sem sendu dönsku stjórninni skaðabótakröfu. Hver þeirra krefst 300 þúsund danskra króna eða um sex milljóna íslenskra króna.

„Það er mikið happ að við höfum fundið hverja aðra og að við getum grætt sárin saman á andlegan hátt, jafnvel þótt við læknumst aldrei líkamlega. Við erum konur sem urðum fórnarlömb karlkynsafla; karlkyns lækna og karlkyns stjórnmálamanna, og var kastað eins og lömbum fyrir úlfahjörð.

Samstaða kvenna skiptir öllu”

Við afhendingu mannréttindaverðlaunanna.
Við afhendingu mannréttindaverðlaunanna.

Mannréttindaverðlaunin

Mannéttindastofnun Danmarkur hefur sæmt þig og hreyfingu ykkar dönsku Mannréttindaverðlaununum. Hversu miklu máli skiptir þetta ykkur?

„Þetta skiptir mig og „systur“ mínar, sem ég hef unnið með og fengu verðlaunin líka, miklu máli. Það skiptir öllu að þau trúa á málstað okkar og styðja okkur, kunna að meta baráttu okkar. Með þessum verðlaunum veita þau okkur meira afl og trú á það sem við gerum og berjumst fyrir.”

Fleiri konur hafa talað um sársauka sinn. Lyberth kom á fót Facebook-hóp til að skapa vettvang fyrir frásagnir og til að styrkja böndin. Fórnarlömbin hafa útskýrt þann vanda sem rekja má til lykkjunnar, allt frá kvalafullum blæðingum og sýkingum til legnáms. Lyberth segir að sú samstaða sem hafi náðst, skipti sig öllu máli. Það sé mikið happ hversu djúpt konurnar hafi náð að tengjast.

„Þetta er mikil valdefling, að öðlast á ný mitt eigið afl og úrræði til að berjast fyrir sjálfa mig og aðrar konur. Það er mikil heilun fólgin í að aðhafast án valdaleysis, sakbitni og skammar, sem áður fangaði okkur og frysti okkur í eigin líkama um áratuga skeið.“

Eftir margra ára tilraunir eignaðist Naja Lyberth son þrjátíu og fimm ára gömul.

Greinin er birt í tilefni af 8.mars, Alþjóðlegs baráttudags kvenna.