Griðastöðum Sýrlendinga fækkar

0
450

Syria refugees

3. september 2012. Fólk á flótta á sífellt erfiðara með að finna griðastaði í Sýrlandi þar sem ástandið hefur farið hríðversnandi og ofbeldi aukist, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Óöryggi hamlar viðleitni til að útvega flóttafólki mat, vatn og hreinlætisaðstöðu.
 “Óbreyttir borgarar, venjulegir karlar, konur og börn – verða langmest fyrir barðinu á ofbeldinu, “ segir Skrifstofa samræmingar mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum (OCHA). “Fólk er drepið á heimilum sínum  eða á götum úti þegar það er að reyna að afla sér lífsviðurværis og annara nauðþurfta eða að reyna að koma særðum í skjól. Umsátur og útgöngubönn í borgum eins og Homs, Hama, Dera’a og Idlib hindra fólk í að ná sér í vatn, mat og hjúkrunargögn.”  
Meir en átján þúsund manns, flestir óbreyttir borgarar hafa látið lífið frá því uppreisn hófst gegn stjórn Bashar al-Assad, forseta hófst fyrir næstum 18 mánuðum.  
Að sögn  OCHA þurfa tvær og hálf milljón manna brýna aðstoð og vernd. Hins vegar reynist sífellt erfiðara að ná til nauðstaddra því óöryggi fer vaxandi í mörgum landshlutum.
Þrátt fyrir þetta hafa 310 þúsund manns sem flosnað hafa upp innanlands (IDPs), fengið brýnustu aðstoð og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur komið matarpökkum til 530 þúsund manns á síðustu þremur vikum. WFP segist munu hafa náð til einnar og hálfrar milljónar í þessum mánuði.
OCHA bendir einnig á að syrt hafi í álinn hjá flóttamönnum frá öðrum ríkjum í Sýrlandi en þar hafa ein og half milljón Palestínumanna leitað skjóls og ein milljón Íraka.

Mynd: Sýrlenskir flóttamenn í Za’tari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Mynd: UNHCR/A. Eurdolian