Heimsmarkmiðin langt frá því að verða að veruleika

0
77
Drengur fyrir framan tákn Heimsmarkmiðanna, heldur á tákni fyrir markmiðið um menntun á frönsku
Drengur fyrir framan tákn Heimsmarkmiðanna, heldur á tákni fyrir markmiðið um menntun á frönskuMynd. UN Photo/Loey Felipe

Heimsmarkmiðin. Heimurinn er „sorglega fjarri” að uppfylla Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun fyrir 2030, að mati helstu forsprakka Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherrar og aðrir áhrifamenn komu saman til fundar í New York í gær til að meta stöðuna. Heimsmarkmiðin voru samþykkt á leiðtogafundi 2015 og því er nú hálfnaður sá tími, sem til stefnu er, til að hrinda þeim í framkvæmd.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að sums staðar stæði skortur á metnaði og samstöðu í vegi fyrir aðgerðum. Mörg ríki römbuðu hins vegar á barmi „fjárhagslegs hengiflugs“ og skorti því úrræði til að láta Heimsmarkmiðin verða að veruleika.

Bilið breikkar

„Það fjárhagslega bil sem þarf að brúa árlega til að framkvæma Heimsmarkmiðin hefur breikkað,“ sagði Guterres. „Fyrir heimsfaraldurinn þurfti að brúa 2.5 trilljón dala bil, en nú er það 4.2 trilljónir.“

Hann sagði að þróunarríki væru að kikna undan vaxtabyrði af lánum. 52 ríki væru nærri greiðslufalli og engar áætlanir um eftirgjöf skulda væru í sjónmáli.

Guterres hvatti aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að koma með skýrar áætlanir og fhyrirheit um að efla aðgerðir til leiðtogafundar um Heimsmarkmiðin á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í september.