Hvað á 8.meginlandið að heita?

0
514

campaign1

Mars/Apríl 2014. Hvað myndir þú kalla ruslahringiðuna miklu á Kyrrahafinu? 

Félag Sameinuðu þjóðanna í Finnlandi hleypti af stokkunum skapandi herferð í janúar síðastliðnum í því skyni að sýna fram á að plastmengunin í höfunum snertir hvert mannsbarn.

Heimasíða herferðinnar hefur að geyma spurningaleik um sjálfbæra þróun og áskorun um alþjóðlegan sáttmála um plastúrgang. Finnska félagið hefur svo fitjað upp á því að leita til almennings um hugmyndir hvað beri að kalla ruslhringiðuna á Kyrrahafinu sem hefur gengið undir nafninu 8.meginlandið.

“Við erum að reyna að sýna fólki hvernig hægt er að taka þátt í vinnuferli Sameinuðu þjóðanna,” segir Helena Laukko, framkvæmdastjóri finnska Félags Sameinuðu þjóðanna.

Herferðin tengist umræðum um sjálfbæra þróun og þróunaráætlanir eftir 2015, þegar Þúsaldarmarkmiðin verða að baki. “Við vonum að nýju þróunarmarkmiðin verði alþjóðleg sjálfbær þróunarmarkmið,” segir Laukko”

“Við leituðum að málefni sem myndi snerta jafnt Finna sem Evrópubúa og fólk í þróunarlöndunum og raunar alls staðar. Plastúrgangur er vandamál sem virðir engin landamæri og ekkert eitt ríki getur tekist á við án samvinnu við aðra,” bætir hún við.

Plastúrgangurinn í hafinu fer ekki minnkandi, þvert á móti. Að mati Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) eru að meðaltali 18 þúsund plaststykki á hverjum ferkílómetra í hafinu.

Félag Sameinuðu þjóðanna í Finnlandi hefur lagt til við finnsku stjórnina að hún beiti sér fyrir alheimssáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um þetta alverlega mál.

Laukko bendir á að ástandið hafi farið síversnandi í tvo áratugi og fátt bendi til breytinga til batnaðar. Þá taki engir alþjóðlegir ferlar á þessu máli.

Plast snertir hópa sem ekki hafa sýnt sjálfbærri þróun mikinn áhuga og nægir að nefna sjómenn og kafara. “Þótt plast í höfunum hafi verið rannsakað I 20 ár eru alls ekki allir meðvitaðir um málefnið.”

Samvinnu er þörf til að takast á við þetta hnattræna vandamál og Laukko bendir á að það sé í þágu allra ríkja, ekki bara Finna, að hreinsa hafið. Af þeim sökum nær herferðin út fyrir landsteina Finnlands og er stefnan að afhenda Sameinuðu þjóðunum undirskriftir sem safna á um heim allan árið 2015.