Út í “buskann” er ekki til

0
553

Situation as it is

Mars/Apríl 2014. Lengi var talið að óverulegt rusl væri í hafinu og það væri í mesta lagi nokkrar strendur sem væru mengaðar án þess að neinn sakaði verulega. Náttúran hefði sinn gang og ruslið brotnaði smám saman niður.

Því miður, var þetta ekki rétt.

Plast brotnar í mörgum tilfellum alls ekki niður, heldur brotnar upp í sífellt smærri hluta. Litlir fiskar gleypa litla plastið og stærri fiskar gleypa þá litlu og svo koll af kolli þar til við kyngjum fiskinum og plastinu með. Plastmengun er orðin alvarlegt vandamál sem herjar á öll heimsins höf.

Svo tröllaukið er vandamálið að sumir tala um ný meginlönd sem hringsnúast á úthöfunum. Stóri Ruslaflekkurinn eða plasthringiðan í Kyrrahafinu er á stærð við Texasfylki í Bandaríkjunum.
Sumir ímynda sér eins konar fljótandi ruslaeyjar í hafinu en reyndin er önnur. Að mestu er um að ræða örsmáar plasteindir sem eru oft og tíðum ekki sjáanlegar með berum augum. Í hringiðunni eru sex kíló af plasti á hvert kíló af náttúrulegu svifi í bland við annars konar niðurbrjótanlegt rusl og dauða fiska, sjávarspendýr og fasta fugal.

En ruslahringiðan á Kyrrahafinu er fjarri ströndum einstakra ríkja og þvi tekur engin þjóð ábyrgð á því að fjármagna hreinsun. Og þetta er ekki eina ruslahringiðan heldur aðeins ein af fimm.
Norður-Atlantshafs ruslahringiðan uppgötvaðist ekki fyrr en árið 1972 en talið er að hún sé hundruð kílómetra í þvermál, og þar séu 200 þúsund öreindir úr plasti á hvern fermetra. Ruslið færist til um allt að 1600 kílómetra frá norðri til suðurs eftir árstíðum.

Það er ekki aðeins yfirborðið sem verður fyrir barðinu því hafsbotninn er sums staðar mengaður, ekki síst nálægt ströndum þar sem vágesturinn birtist í líki plastpoka. Plast er svo að finna á ströndum hvort heldur sem er í þéttbýli eða á afskekktum mannauðum eyjum.

Plastpokar fjúka út á haf út og enda í maga sjávarspendýra og fugla og verða stundum hvölum og selum aðaldurtila að ógleymdum ýmsum tegundum af skjaldbökum, sumum í útrýmingarhættu.
Í Norðursjónum er plast að finna í mögum 94% allra sjávarfugla. Annars staðar í Evrópu, undan ströndum Toscana á Ítalíu eru plastpokar 73% þess plastrusl sem slæðist í veiðarfæri togara.
Hægt, of hægt að mati umhverfisverndarsinna, eru jarðarbúar að vakna til vitundar um umfang þessa vanda og afleiðingarnar fyrir fæðukeðjuna.
Hvaðan kemur þetta allt saman?

Talið er að 80% rusls í hafinu komi af landi

.Skaðvaldarnir eru ferns konar:

• Rusl sem tengist ferðamennsku á ströndum; þar á meðal matarleyfar, umbúðir, sígarettur og plastleikföng sem sóldýrkendur og baðgestir skilja eftir sig.

• Rusl sem berst með skolpi. Í ofsaveðrum og miklum rigningum flæðir skolp óhreinsað oft og tíðum út í ár og sjó og með þeim rusl af götum, smokkar og sprautunálar.

• Rusl sem tengist sjómennsku. Þarna á meðal eru fiskilínur og net, flotholt og festingar og eitt og annað sem fellur fyrir borð af fiskibátum eða er hent viljandi í sjóinn.

• Úrgangur úr skipum og bátum. Þarna er á ferðinni rusl sem fellur eða er hent fyrir borð.