Hvað ertu búinn að borða mikið vatn í dag?

0
520

Renfile-NN norden org

Vatnsvikan var haldin í Stokkhólmi vikuna 26. til 31. ágúst og var þemað að þessu sinni “Vatn og fæðuöryggi.” José Graziano da Silva, forstjóri FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna orðaði þessi tengsl á þennan hátt í ræðu sinni á Vatnsvikunni: “Það er ekkert fæðuöryggi án öruggs vatns.”

Sjónum var beint að skilvirkri vatnsnotkun í fæðuframleiðslu í tengslum við heilbrigði; borgarskipulag og græna hagkerfið. FAO telur að 30 af hundraði allrar fæðu sem framleidd er í heiminum eða 1.3 milljarðar tonna fari til spillis á leiðinni frá framleiðanda til neytanda. FAO telur að það sé nauðsynlegt að draga úr vatnssóun í því skyni að tryggja sjálfbæra fæðuframleiðslu.

Matvælastofnunin hefur kynnt rammaáætlun sem miðar að því að draga úr fæðuóöryggi með því að nýta betur vatn í landbúnaði og draga úr sóun. Markmiðið er að efla betri vatnsnýtingu, til dæmis með því að endurnýja áveitur, að endurnýta og hreinsa vatn, koma upp búnaði til að minnka vatnsmengun og safna regnvatni til að draga úr hættu af völdum þurrka; svo eitthvað sé nefnt.

70% ferskvatns jarðarinnar er notað við fæðuframleiðslu en þriðungur alls ræktaðs grænmetis er notað sem dýrafóður. Fimm til tíu sinnum meira vatn þarf til að ala dýr en til að rækta grænmeti. Sumir sænskir vísindamenn telja að fæðuframleiðsla muni raskast vegna vatnsskorts og til að forðast alvarlega matvælakreppu þyrfti nánast hver einasti jarðabúi að gerast grænmetisæta eftir fjörutíu ár.
Aðalræðumaður lokafundar Vatnsvikunnar var Lakshmi Puri, varaforstjóri UN Women.  Puri lagði áherslu á að ójöfn staða karla og kvenna krystallaðist í aðgangi að vatni. Konur væru ábyrgar fyrir að sækja vatn bæði í dreifbýli og fátækrahverfum stórborga. Talið væri að konur verðu 200 milljónum stunda á degi hverjum í að útvega vatn. Þetta hefði bæði skaðleg áhrif á heilsu og drægi úr möguleikum til öflunar menntunar og tekna á annan hátt.
“Konur verða alltof oft hlutfallslega verst úti þegar vatn skortir. Flest sem tengist útvegun vatns hvílir á herðum kvenna; þær eru í aðalhlutverki í fæðuframleiðslu, ekki síst í sjálfsþurftabúskap og vinna stærstan hluta ólaunaðrar vinnu. Engu að síður koma þær lítið að ákvarðanatökum um vatn og fæðuframleiðslu. Þetta hefur ekki aðeins í för með sér að ákvarðanataka byggir oft á vanþekkingu og hlutdrægni, heldur grefur einnig undan mannréttindum kvenna,” sagði Puri.
Fleiri jarðarbúar hafa aðgang að síma en salerni. Slæm hreinlætisaðstaða kemur ekki síst niður á konum og stúlkum. Stockholm International Water Institute (SIWI) telur að rekja megi 194 milljón daga fjarveru frá skóla til skorts á salernum. Fyrir konur er aðgangur að sómasamlegum salernum spurning um virðingu og öryggi.

SIWI bendir á að allt að 8 þúsund börn deyja á dag vegna vatnsborinna sjúkdóma. Eitt af Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að helminga fjölda fólks sem ekki nýtur sómasamlegrar hreinlætisaðstöðu fyrir 2015. Þetta markmið hefur ekki verið mjög sýnilegt í umræðunni og langt virðist þar til því verður náð.
 
Vatnsvikan sjálf var gagnrýnd í fjölmiðlum fyrir þá sök að helsti kostunaraðili hennar var fjölþjóðafyrirtækið Nestlé og ráðstefnugestum var boðið upp á Vittel, flöskuvatn þrátt fyrir að kranavatnið í Stokkhólmi sé á meðal þess hreinasta í heimi.

Mynd: Norden.org