Hvernig tala á við börnin ykkar um hatursorðræðu

0
20
Dagur netsins í Mexíkóborg.
Dagur netsins í Mexíkóborg. Mynd: ProtoplasmaKid/Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0

18.júní: Alþjóðlegur dagur til höfuðs hatursorðræðu. Hatursorðræða er ekki ný af nálinu, en fitnar eins og púki á fjósbita á dögum samfélagsmiðla. Þar sem ungt fólk verður oft og tíðum mest fyrir barðinu á hatursorðræðu, ber því að vera hluti af lausninni, að mati António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á þriðja Alþjóðlega degi til höfuðs hatursorðræðu. 

Hvernig á að hjálpa barninu þínu að þekkja haturosorðræðu og vita hvað ber að gera til að bregðast við

Hvort heldur sem er á netinu eða í samskiptum við aðra standa nærri öll börn og ungmenni einhverju sinni andspænis hatursorðræðu. Mikilvægt er að foreldrar tali við barnið um hatursorðræðu til að hjálpa þeim að þekkja fyrirbærið og vita hvað ber að gera til að stemma stigu við henni.

Hatursorðræða

Hvað er hatursorðræða?

Hatursorðræðu má lýsa sem hvers kyns tjáningu, munnlegri skriflegri eða líkamlegri, sem felur í sér að ráðast gegn, eða mismuna einstaklingum eða ráðast að séreinkennum hóps vegna trúar, uppruna, þjóðernis, kynþáttar, húðlitar, fötlunar, aldurs, kyns eða kynhneigðar.

Hatursorðræða er ekki bundin við orð. Hún getur tekið á sig mynd teikninga, leikja, ímynda, myndbanda, hluta, látbragðs eða tákna. Hatursorðræða er ekki alltaf augljóslega fjandsamleg, heldur getur hún einnig komið fram í kímni eða kaldhæðni.

Hatursáróðri hafnað.
Hatursáróðri hafnað. Mynd: Jason Leung/Unsplash

Hatursorðræða og tjáningarfrelsi

Hægt er að vera ósammála eða gagnrýna einstakling eða hóp, án þess að ógna velferð eða öryggi viðkomandi. Hatursorðræða skerðir tjáningarfrelsi vegna þess að þeir sem verða fyrir barðinu á hatursfullri orðræðu finnst þeir ekki njóta öryggis til þess að tjá sig.

Tjáningarfrelsi felur ekki í sér rétt til að takmarka tjáningarfrelsi annara.

Hatursorðræða

Hvernig á að tala við börnin ykkar um hatursorðræðu

  1. Að kenna börnunum í hverju hún felst

Útskýrðu fyrir barninu að allir hafi rétt á að finnast þeir njóta öryggis í samfélaginu og að komið sé fram við þá með reisn og af virðingu. Hatursorðræða er alltaf röng og við berum öll ábyrgð á því að hafna henni.

Skoðið í sameiningu hvað hatursorðræða er, svo að barnið læri að þekkja hana. Hvettu barnið til að hafa opinn huga og vera forvitið á heiðarlegan hátt um annað fólk. Stundum byggir hatursorðræða á þekkingarleysi eða falsfréttum.

Með eldri börnunum má skoða söguleg dæmi um hvernig hatursorðræða hefur verið hluti af aðdraganda átaka og mannréttindabrota. Sameinuðu þjóðirnar hafa safnað saman slíkum sögulegum dæmum sem sýna hvernig hatursorðræða hefur leitt til ofbeldis. .

Nyamata-mnningasafn um þjóðarmorðið í Rúanda.
Nyamata-mnningasafn um þjóðarmorðið í Rúanda. Mynd:
Fanny Schertzer/
Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0
  1. Hatursorðræða á netinu

Netið og samfélagsmiðlar gera okkur kleift að tengjast vinum og fjölskyldu, sinna áhugamálum og vera hluti af samfélaginu. Því miður hafa slík stafræn tæki og tól einnig auðveldað að koma hatursfullu efni á framfæri á ógnarhraða- oft og tíðum nafnlaust.

Þar sem mörg börn verða vör við hatursorðræðu á netinu er mikilvægt að vera á verði fyrir því hvað barnið aðhefst. Hvað samfélagsmiðla nota þau og hverjum fylgja þau?

Átak gegn hatursorðræðu á netinu.
Átak gegn hatursorðræðu á netinu. Mynd:
O’micron/Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Börn geta ekki ein síns liðs greint á milli áreiðanlegra og óáreiðanlegra upplýsinga. Skýrið fyrir þeim að upplýsingar á netinu séu ekki alltaf réttar og geti skaðað einstaklinga, sundrað samfélaginu, grafið undan trausti og stuðlað að ofbeldi. Minntu barnið á að það séu manneskjur handan skjásins. Það sem einum finnst skaðlaust kann að særa aðra djúpt.

  1. Talið opinskátt og oft við börnin

Því meira sem þið ræðið við börnin ykkar um mál eins og hatursorðræðu, kynþátta- og útlendingahatur, því auðveldar eiga þau með að leita til ykkar ef þau standa andspænis slíku.

Tölvukennsla í ÅIholm Skole í Kaupmannahöfn:
Tölvukennsla í ÅIholm Skole í Kaupmannahöfn: Mynd: Yadid Levy / Norden.org

Sækist eftir því að ræða þessi mál hvunndags. Til dæmis ef eitthvað sem máli skiptir kemur upp á í sjónvarpsdagskránni, getið þið notað tækifærið og spurt barnið hvað það veit um málið og hvað því finnst.

Sum börn (og fullorðnir) nota hatursfullt orðalag sem því finnst fyndið, eða skilja ekki til fullnustu merkinguna að baki því. Ef þetta á við um barnið þitt, skaltu grípa inn í og nota tækifærið til að sýna fram á hvers vegna orð þeirra eru óviðeigandi og geta verið skaðleg.

  1. Rísið upp gegn hatursorðræðu

Hafið hugfast að þið eruð fyrirmynd barnsins og verið meðvituð um ykkar eigin orð og gjörðir, þar á meðal á netinu. Notið hvert tækifæri til að hafna hatursorðræðu og rísa upp fyrir rétti hverrar manneskju til að komið sé fram við hana með sæmd og af virðingu.

Hatursorðræða
Hatursorðræða

Útskýrið fyrir barninu ykkar að ef við við verðum vör við hatursorðræðu, ber okkur að sýna þeim stuðning sem verða fyrir slíku og leita leiða til að hafna hatursorðræðu.

Þýðingarmikið er að skilja að það er líka manneskja sem er á bakvið hatursorðræðu. Með því að öðlast skilning á hvers vegna viðkomandi ber slíkt hatur í brjósti, er hægt að finna leiðir til að sporna við hatursorðræðu.

Skólavörðustígur.
Skólavörðustígur. Mynd: UNRIC/ÁS
  1. Fögnum fjölbreytileika

Útskýrið fyrir barninu ykkar að við erum ekki öll eins – hamningjunni sé lof.  Heimurinn væri leiðinlegur og litlaus ef allir væru eins. Með því að ýta undir opið hugarfar og forvitni er hægt að hjálpa barninu að sjá mismun og læra að meta hann. Slíkt er hvetjandi fyrir samræðu, skilning og samhug með fólki sem eru ólíkt börnunum okkar.

Byggt er á dæmum frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og túlkunum Severi Hämäri frá Faktabaari, finnskri stofnun um stafrænt læsi.

Alþjóðlegi menntadagurinn var helgaður baráttunni gegn hatursorðræðu, sjá hér.