Ísland í þriðja sæti á lífsgæðalista SÞ

0
35
Mynd. UNDP Cambodia.

Lífsgæðalisti Sameinuðu þjóðanna. Ísland er í þriðja sæti á nýjum Lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna. Sviss trónir á toppi lista en Noregur kemur þar á eftir. Sáralitlu munar á efstu ríkjunum þremur. Fjögur Norðurlandanna eru í hópi tíu efstu, en Danir eru númer sex og Svíar sjö.

Lífsgæðavísitala Sameinuðu þjóðanna (Human Development Index, HDI) hefur verið birt árlega frá 1990.

Hún mælir lífsgæði út frá árangri ríkja á þremur sviðum mannlegrar þróunar. Lífslíkur og heilbrgiði íbúanna, þekking og menntun og lífskjör eru lögð til grundvallar við matið.

Bilið breikkar

Listinn er birtur í árlegri skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) um mannlega þróun. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að árangur í þróun heimsins sé afar ójafn. Ójöfnuður hafi aukist og hinir fátækustu verði eftir með þeim afleiðingum að hætta sé á enn meiri sundrungu í heiminum. Hnattrænna aðgerða sé þörf til að hamla þessari þróun.