Kvenkyns diplómatar: Í fótspor Katrínar af Aragon

0
30
Efri mynd til vinstri, Christina Markus Lassen fastafulltrúi Dana, Katrín af Aragon, efst til hægri; neðst til vinstri Bodil Begtrup norski diplómatinn Hilde Frafjord Johnson og neðst til hægri
Efri mynd til vinstri, Christina Markus Lassen fastafulltrúi Dana, Katrín af Aragon, efst til hægri; neðst til vinstri Bodil Begtrup norski diplómatinn Hilde Frafjord Johnson og neðst til hægri

 Þegar skipan fyrsta kvenkyns sendiherra í Finnlandi var í bígerð taldi forsætisráðherra landið það af og frá og frá því sú kona sem hafði valist gæti ekki setið að sumbli í samningaviðræðum með karlmönnum fram á rauða nótt.

Tyyne Leivo-Larsson var skipuð sendiherra 1958
Tyyne Leivo-Larsson var skipuð sendiherra 1958

Andspyrna hafði verið gegn skipun Tyyne Leivo-Larsson innan finnsku utanríkisþjónustunnar og K.-A. Fagerholm forsætisráðherra landsins 1958 fann því foráttu að hún væri bindindiskona og því ótæk við samningaborð starfsbræðra þar sem vín rynni í stríðum straumum. Sögulega séð hafa karlar einokað starf diplómata, sem best sést á íslenska starfsheitinu sendiherra. 24.júní er Alþjóðlegur dagur kvenkyns diplómata.

Allsherjarþing sameinuðu þjóðanna ákvað 2022 að tími væri kominn til að viðurkenna og heiðra framlag kvenna á þessu sviði og hvernig konur hefðu brotið niður múra og skipt sköpum á sviði stjórnarerindreksturs.

Alva Myrdal önnur frá vinstri.
Alva Myrdal til vinstri..

Fyrsti kvenkynssendiherra Svía fékk Nóbelinn

 Fyrstu konur sem skipaðar voru sendiherrar á Norðurlöndum eru gott dæmi um slíkt.

Alva Myrdal var ekki aðeins fyrst sænskra kvenna til að vera skipuð sendiherra (á Indlandi 1955), heldur gegndi hún áður ábyrgðarstörfum hjá Sameinuðu þjóðunum og UNESCO. Hún deildi síðar friðarverðlaunum Nóbels með mexíkóska diplómatinum Alfonso García Robles fyrir framlag til afvopnunarmála árið 1982.

Bodil Begtrup varð fyrst danskra kvenna til að vera skipuð sendiherra. Hún hafði verið sendifulltrúi Dana á Íslandi í nokkur ár þegar hún var hækkuð í tign 1955, sama ár og Myrdal varð sendiherra. Áður hafði Begtrup verið varaformaður nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem samdi sjálfa Mannréttindayfirlýsingu samtakanna árið 1948.

Tuttugu árum síðar, 1975, var komið að Noregi að skipa fyrstu konuna í sendiherrastarf  Kirsten Ohm hjá Evrópuráðinu. Ísland beið svo til 1991 en þá varð Sigríður Á. Snævarr sendiherra í Svíþjóð, rúmum hálfum fjórða áratug eftir skipan þeirra Myrdal og Begtrup í Svíþjóð og Danmörku. Eins og fyrr segir hafði Tyyne Leivo-Larsson verið skipuð sendiherra Finna í Noregi 1958.

Margrét II Danadrottning setur á sig hjálm í skoðunarferð hjá Sameinuðu þjóðunum.
Margrét II Danadrottning setur á sig hjálm í skoðunarferð hjá Sameinuðu þjóðunum. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Í fótspor Katrínar af Aragon

Spænska prinsessan og síðar Englandsdrottningin Katrín af Aragon er talin fyrsta kona í sendiherrastarfi árið 1507. Hins vegar ber auðvitað að hafa hugfast að oddvitar ríkja og ráðherrar eru leiðandi í samskiptum ríkja þótt þeir sinni því ekki eingöngu eins og diplómatar.

Margrét fyrsta.
Margrét fyrsta. Mynd: Wikimedia

Ef sú skilgreining er notuð má færa rök fyrir því að fyrsti norræni kvenkyns diplómatinn hafri verið Margrét fyrsta Valdemarsdóttir drottning Danmerkur og Noregs 1387 og síðan alls Kalmarssambandsins þegar Svíþjóð bættist við. Hún var drottning allra Norðurlanda því Finnar tilheyrðu Svíum og Íslendingar dansk-norska ríkinu.

Vel rúmu hálfu árþúsundi síðar, eða nærri 600 árum, varð Margrét önnur drottning Danmerkur og merkur fulltrúi þjóðar sinnar á alþjóðlegum vettvangi (1972-2024).

Norðmenn bíða þess enn að kalla fyrstu konu til krúnunnar frá dögum Kalmarsambandsins, en í Svíþjóð ríkti Ulrika Elenora sem drottning um skamma hríð í byrjun 18.aldar.

Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta við Bessastaði 1986.
Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta við Bessastaði 1986. Mynd: White House Photographic Collection

Vigdís, Halla og Halonen

Ísland kaus fyrst allra ríkja konu sem forseta í almennum kosningum, Vigdísi Finnbogadóttur (1980-1996). Og nú hefur Halla Tómasdóttir verið kosin forseti önnur íslenskra kvenna.

Tarje Halonen sat í embætti utanríkisráðherra fyrst finnskra kvenna þegar hún var kosin forseti landsins (2000-2016). Í 68 daga 2003 sátu konur bæði á forseta- og forsætisráðherrastól í Finnlandi því Anneli Jäätteenmäki varð fyrst finnskra kvenna til að stýra ríkisstjórn en hrökklaðist frá völdum eftir rúma tvo mánuði.

Taka ber fram að fyrir utan Finnland er það ekki þjóðhöfðingi sem alla jafna ber ábyrgð á utanríkismálum heldur ráðherrar ríkisstjórna á Norðurlöndum. Og því er ekki að leyna að margar konur í stöðu forsætisráðherra hafa látið mikið til sín taka á alþjóðlegum vettvangi.

Gro Harlem Brundtland ávarpar umhverfisráðstefnuna í Rio de Janeiro 1992.

Gro Harlem Brundtland ávarpar umhverfisráðstefnuna í Rio de Janeiro 1992.

  Brundtland rústaði glerþakinu

Það telst raunar til tíðinda að þessa stundina er Mette Fredriksen hin danska eina kona sem stýrir ríkisstjórn á Norðurlöndum. Hún varð önnur danskra kvenna árið 2019 til að setjast í forsæti ríkisstjórnar, en fyrst varð Helle Thorning-Schmidt (2011-2015). Þar til fyrir skömmu voru hins vegar konur forsætisráðherrar Finnlands og Íslands, auk Danmerkur. Eins og dönsku konurnar tvær voru þær Sanna Marin (2019-2023) Katrín Jakobsdóttir (2017-2024) áberandi á alþjóðavettvangi.

Gro Harlem Brundtland rauf glerþakið á mörgum sviðum. Hún varð forsætisáðherra fyrst norrænna kvenna þegar hún var skipuð í það embætti í Noregi 1981. Hún lék stórt hlutverk á alþjóðlegum vettvangi, ekki síst í forsæti nefndar um sjálfbæra þróun. Nefndin og tímamótaskýrsla sem hún skilaði er nefnd eftir Brundtland. Önnur norsk kvenna í forsæti ríkisstjórnar, Erna Solberg, (2013-2021) var einnig atkvæðamikil ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

 Aðeins ein kona, Magdalena Andersson, hefur verið forsætisráðherra Svíþjóðar,

Magdalena Andersson á blaðamannafundi með António Guterres aðalframkvæmdastjóra SÞ.
Magdalena Andersson á blaðamannafundi með António Guterres aðalframkvæmdastjóra SÞ.

 (2021-2022). Litlu munaði þó að sú skipan lifði ekki skipunardaginn af því hún sagði af sér eftir aðeins sjö klukkustundir vegna fjárlagakreppu, sem síðar leystist. Hins vegar hafa fleiri sænskar konur gegnt starfi utanríkisráðherra en dæmi eru um annars staðar. Alls hafa átta konur verið utanríkisráðherra Svíþjóðar frá því Karin Söder (1976-1978) braut þetta glerþak árið 1976.

Lene Espersen ávarpar fund Mannréttindaráðsins sem utanríkisráðherra Dana.
Lene Espersen ávarpar fund Mannréttindaráðsins sem utanríkisráðherra Dana.

Á hinn bóginn hefur aðeins ein kona, Lene Espersen (2010-2011), stýrt danska utanríkisráðuneytinu og það í aðeins eitt ár.  Ísland státar hins vegar af fjórum konum, þar á meðal núverandi ráðherra Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur.

Finnska starfsystir hennar Elina Valtonen er önnur konan í því starfi en sú fyrsta var sem fyrr segir Tarja Halonen (1995-2000) fyrir 29 árum.

Þá er ógetið Norðmanna en tvær konur hafa stýrt norsku utanríkisþjónustunni hver á fætur annari Ine Marie Søreide (2017-2021) og Anniken Huitfeldt (2021-2023).

 Alþjóðlegir diplómatar

Alþjóðasamskipti fara ekki einungis fram á milli ríkja heldur ekki síður á vettvangi alþjóðastofnana. Svo margar norrænar konur hafa haslað sér völl sem alþjóðlegir diplómatr að það væri að æra óstöðugarn að telja þær allar upp.

Hér eru þó nokkur dæmi:

Hilde Frafjord Johnson
Hilde Frafjord Johnson

Hilde Frafjord Johnson (Noregi) var varaforstjóri UNICEF (2017-2011) og lék lykilhlutverk í friðarviðræðum í Súdan.

Gro Harlem Brundtland (Noregi) var forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO, 1998-2003).

Grete Faremo (Noregi) var undir-framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum og stýrði UNOPS,verkefnaþjónustu samtakanna. (2014-2022)

Kirsi Madi. Photo: UN Women/Ryan Brown
Kirsi Madi. Photo: UN Women/Ryan Brown

Kirsi Madi (Finnlandi) var skipuð aðstoðar-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og varaforstjóri UN WOMEN, Jafnréttisstofnunarinnar 2023.

Helvi Sipilä  (Finnlandi) var fyrst kvenna til að vera skipuð aðstoðar-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 1972.

Elisabeth Rehn (Finnland) var undir-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 1998-199 og mannréttindafulltrúi í Bosníu og Hersegóvínu.

Ulrika Modéer ásamt landa sínum stjórnarerindrekanum Jan Eliasson
Ulrika Modéer ásamt landa sínum Jan Eliasson þá vara-aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Ulrika Modéer (Svíþjóð) stýrir ytri samskiptum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og er jafnframt the (UNDP) aðstoðar-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna síðan2018.

Kirstine Damkjær (Denmark) var skipuð varaforstjóri UNOPS 2024.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var utanríkisráðherra en síðan hefur hún haslað sér völl á alþjóðlegum vettvangi. Hún var fulltrúi UN WOMEN í Afganistan (2012-2014) og síðar svæðisstjóri fyrir Evrópu og mið-Asíu með búsetu í Tyrklandi. Ingibjörg Sólrun var forstjóri Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Varsjá  (2017-2020), svo fátt eitt sé talið.

 .