Loftslagsbreytingar: Tíu ár til stefnu

0
479

 IPCC 

3.nóvember 2014. IPCC, Loftslagnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út alvarlega aðvörun í nýjustu matsskýrslu sinni um loftslagsbreytingar.

Í skýrslu IPCC sem kynnt var í Kaupmannahöfn í gær eftir vikulanga yfirferð nefndarinnar, er varað við því að ef ekki verði að gert aukist líkur mjög á alvarlegum, djúpstæðum og óafturkræfum loftslagsbreytingum.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði við kynningu skýrslunnar að ef ríki heims héldu áfram að „láta sem ekkert sé” gæti tækifærið til að halda hækkun hitastigs jarðar innan tveggja gráða á selsíus „runnið okkur úr greipum á næsta áratug.“

„Vísindamenn hafa enn ítrekað niðurstöður sínar og hafa aldrei kveðið skýrar að orði en í þessari nýjustu skýrslu. Tíminn er okkur ekki hliðhollur…leiðtogar verða að grípa til aðgerða.”

„Okkar mat er að loftslagið og höfin hafa hlýnað, snjór og ís eru á undanhaldi og yfirborð sjávar hefur hækkað , “ segir Thomas Stocker, annar tveggja formanna vinnuhópsins sem vann síðustu skýrslu IPCC. „Styrkur koltvíserings í andrúmsloftinu hefur ekki verið meiri í að minnsta kosti 800 þúsund ár.

Ban Ki-moon segir að skýrslan sé umfangsmesta mat á lofstlagsbreytingum til þessa. Hann segir að þótt tíðindin séu váleg sé þó ljós í myrkrinu, því ef við grípum til aðgerða nú megi byggja betri og sjálfbærari heim.
„Sú óvísindalega goðsaga að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum séu kostnaðarsamar er býsna lífseig,” segir framkvæmdastjórinn. „Hún byggir á algjörum misskilningi því það er mun kostnaðarsamara að halda að sér höndum. Aðgerðir í loftslagsmálum og hagvöxtur haldast í hendur; eru tvær hliðar á sama pening.”

Framkvæmdastjórinn var í Kaupmannahöfn í gær en auk þess að sitja fund IPCC átti hann viðræður við danska ráðamenn.

Mynd: SÞ-mynd//Amanda Voisard