Matvælaáætlunin biður um 500 milljónir dollara til að mæta hækkandi matarverði

0
448

24. mars 2008 – Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) sem fæðir 73 milljónir manna daglega hefur beðið þjóðir heims um að láta af hendi rakna 500 milljónir Bandaríkjadala til að mæta hækkandi matar- og eldsneytisverði í heiminum.

“Við hvetjum ríkisstjórn ykkar til að bregðast skjótt við til að hægt verði að forðast að skera niður matarskammta þeirra sem þurfa að reiða sig á aðstoð heimsins til að lifa af neyðarástand,” skrifaði Josette Sheeran, forstjóri WFP í bréfi til þeirra ríkisstjórna sem stutt hafa sjóðinn í bréfi 20. mars.  
Verð á matvælum og eldsneyti hefur slegið öll met í ár og nemur hækkunin 55% síðan í júní 2007. Frú Sheeran benti á að WFP hefði reynt að bregðast við þessu og keypti nú 80% af matarbirgðum sínum á staðbundnum mörkuðum.  
Fátækt fólk mun einnig eyða hærra hlutfalli af tekjum sínum í mat, að sögn WFP sem þýðir að það kaupir minni mat, næringarsnauðari mat eða verður að treysta á aðstoð.  
“Við munum vinna með ríkisstjórnum, stofnunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum samstarfsaðilum að því að leita langtímalausna um leið og við bregðumst við þessum bráða vanda,” sagði frú Sheeran.  
Að sögn WFP eru þau lönd sem verða harðast úti Zimbabwe, Erítrea, Haítí, Djibouti, Gambía, Tadjikistan, Tógó, Tsjad, Benín, Mynamar, Kamerún, Níger, Senegal, Jemen og Kúba.