Miðjarðarhaf: 71% sætir þrælkun eða mansali

0
479
Refugees Lesbos

Refugees Lesbos
18.október 2016. Nærri þrír fjórðu hlutar þess farandfólks sem leitar yfir miðjarðarhafið sjóleiðina í leit að betra lífi í Evrópu hefur sætt illri meðferð og í sumum tilfellum mansali, að því er fram kemur í viðamikilli könnun Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) sem birt er í dag.

Rannsóknin byggist á um 9 þúsund svörum farandfólks sem spurt var við komu til suður Ítalíu eftir ferð án tilskilinna leyfa yfir Miðjarðarhafið. Reynt var að komast að raun um hvort fólkið hefði sætt mansali eða verið beitt þvingunum svo sem að stunda vinnu án greiðslu eða verið haldið föngnu af öðrum en yfirvöldum.

Af þeim sem höfðu haldið yfir Miðjarhafið mitt hafði nærri helmingur, 49% verið haldið föngnum frá því fólkið lagði af stað úr heimahögunum við aðstæður sem flokkast undir mannrán enda fólkið krafið um greiðslu gegn því að fara frjálst ferða sinna.

Langflest tilvik slæmrar meðferðar af þessu tagi voru í Líbýu en þar hefur ríkt óöld um langt skeið.

Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að því lengur sem ferð farandfólksins stendur, því hættari er þeim við að sæta þvingunum, misnotkun og mansali.
Þannig hafði 79% þeirra sem höfðu verið meir en eitt ár á vergangi sætt að minnsta kosti einhvers konar harðræði.

Skýrslan er gefin út 18.október á degi til að vekja fólk til vitundar um nútíma þrælahald í Bretlandi.
“Á þessum degi er mikilvægt að við lítum til Evrópu og annara ríkja heims og reynum að skilgreina hvað við getum gert ekki aðeins fyrir þá sem komist hafa lifandi til Evrópu, heldur einnig þeirra sem sæta illri meðferð á leið sinni,” segir
Dipti Pardeshi, yfirmaður IOM í Bretlandi.